Í lok mars kíkti Virpi Jokinen, skipuleggjandi og eigandi Á réttri hillu til okkar í Ljósið. Virpi, sem margir vilja meina að sé hin íslenska Marie Kondo, hélt frábæran fyrirlestur þar sem hún sló á létta strengi, sagði frá sjálfri sér og hvernig það kom til að hún umbreyttist í fyrsta íslenska vottaða skipuleggjandann (e. Professional Organizer) og auðvitað um hvernig skipulag og líðan geta haldist hönd í hönd.
Það er óhætt að segja að við í Ljósinu höfum notið þess mikið að hlusta á Virpi og eftir fyrirlesturinn þá kom upp umræðan hver voru helstu gullkornin sem við ætlum að nýta okkur heima fyrir.
Hér koma því 7 gullkorn frá Virpi fyrir þau ykkar sem ekki komust til þess að hlusta á hana tala:
- Þú þarft ekki að taka til í öllu húsinu til að verða hamingjusamur/söm
- Skoðaðu umhverfi þitt – hvað virkar fyrir þig – hverju viltu breyta?
- Vinna með afmörkuð verkefni í einu – sem þú getur lokið við. Ekki róta út úr öllum fataskápum og sitja svo uppgefin/n í hrúgunni.
- Forgangsraða – hvað er mikilvægt núna og í framtíðinni – er þetta að þjóna mér núna eða í framtíðinni?
- Afmarka hlutum pláss. Setja það sem er mikið notað fremst og í kjörhæð, í réttu rými. Það ser er óvirkt í geymslu eða efst/neðst í skápana.
- Skoða neysluvenjur, minnka innkaup.
- Hlúa að sjálfum okkur og finna sátt ótengt veraldlegum hlutum
Við í Ljósinu sendum Virpi okkar bestu þakkir fyrir komuna og gleðina!
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.