Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna – SKB

skb.jpg Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (skb.is) var stofnað 2. september 1991 af foreldrum barna með krabbamein. Markmiðið með stofnun félagsins var m.a. að styðja við bakið á þeim og aðstandendum þeirra bæði fjárhagslega og félagslega. Til að byrja með hafði félagið ekki mikið bolmagn til framkvæmda en úr rættist með stórri landssöfnun 1993. Þá var m.a. stofnaður neyðarsjóður sem félagsmenn SKB geta sótt um fjárstyrk úr.

Árlega greinast að meðaltali 10 – 12 börn og unglingar 18 ára og yngri með krabbamein á Íslandi. Ísland er mjög framarlega í lækningum á krabbameini í börnum og njótum við þess að eiga lækna og hjúkrunarfólk sem er í góðum tengslum við samstarfsfólk sitt erlendis og því ávallt mjög upplýst um nýjustu aðferðir.

SKB hefur ávallt stutt vel við bakið á fagfólki sem vinnur að umönnnun og lækningu krabbameinsveikra barna, en bætt þekking fagfólks ætti að nýtast öllum þeim er þurfa að sækja þjónustu Barnaspítala Hringsins. Eins hefur SKB bætt aðbúnað inniliggjandi sjúklinga á Barnaspítala Hringsins með ýmsum tækjakaupum.

SKB styður ekki síður félagslega við félagsmenn sína en fjárhagslega. Starfrækt er öflugt unglingastarf og fræðslustarf og eins gefst foreldrum tækifæri á að hittast reglulega. Nokkrir skipulagðir viðburðir eru yfir árið eins og til dæmis jólastund, sumarhátíð og árshátíð.