Solla á Gló eða betur þekkt sem Solla himneska hefur margoft komið til okkar í Ljósið og töfrað fram himneskar kræsingar ásamt því að vera með fræðslu um hráfæði, spírun, djúsgerð,matargerð og margt fleira. Við auglýsum það sérstaklega þegar Solla kemur og er með fræðslu og sýnikennslu. Hér að neðan er grein frá Sollu um mataræði. Einnig erum við með link hérna sem heitir uppskriftir og munum við eftir bestu getu setja þar inn gómsætar uppskriftir af hollu fæði. HUGLEIÐING UM MATARÆÐI Hugtakið heilsufæði er í dag á margra vörum og heyrist æ oftar í umræðunni um matarvenjur. Mér finnst það liðin tíð að um tískubólu sé að ræða, fólk er almennt nokkuð meðvitað um heilsu og vellíðan sem og umhverfismál. Þú þarft ekki lengur að tengjast sértrúarhópi eða green peace til að lauma grænkálsbúnti í innkaupakörfuna. En auðvitað þekkja þó margir það að hafa farið á heilsuflipp, kaupa sér pakka af sojabaunum, elda úr helmingnum af pakkanum sojabaunabuff, fá fjölskylduna upp á móti sér, setja restina af baunapokanum upp í skáp og 2 árum síðar í jólahreingerningunni að lauma þeim í ruslið eftir að hafa lesið á dagsstimpilinn. Þetta er breytt. Fjölmargir kaupa 1 pakka af linsum og ½ kjúkling í sömu innkaupaferðinni og nota jafnvel í sömu máltíðinni. Ég trúi því að æ fleiri aðhyllist svokallað HEILSUFÆÐI. Mín skilgreining á heilsufæði er sú að það sé hollt nútíma mataræði með höfuðáherslu á gott hráefni, þar sem reynt er að sneiða hjá skaðlegum aukaefnum, mikið unnu hráefni og hvítum vörum – t.d. hvítur sykur, hvítt hveiti, hvítt pasta, hvít hrísgrjón m.m.-. Það skiptir máli að hafa grænmetið ferskt í stað þess að kaupa það niðursoðið. Oft er búið að bæta ýmsum aukaefnum í það niðursoðna og ef þið lesið á umbúðirnar má sjá að sykri er iðulega bætt út í niðursuðuvörur s.s. maískorn, grænar baunir og nýrnabaunir svo eitthvað sé nefnt. Tómatvörur eru líka oft stútfullar af sykri, það borgar sig að lesa aftan á þær. Ég hef mínar tómatvörur alltaf lífrænar. Einnig er betra að kaupa ferska vöru í stað frosinnar, en þó er betra að hafa vöruna frosna en í venjulegri ál niðursuðudós. Um daginn hringdi í mig kona sem hafði verið hjá mér á matreiðslunámskeiði, þakkaði fyrir síðast og opnaði sig :“Líf mitt breyttist eftir að ég fór að lesa innihaldslýsingar utan á umbúðum. Ég hætti að kaupa hnetusmjörið með hertri fitu og sykri og fór að kaupa hnetusmjörið þitt, í því voru eingöngu hnetur. Ég fór að kaupa betri útgáfu af þeirri vöru sem ég ætlaði að nota í matinn. Stundum blöskraði manninum mínum verðið, en eftir smá umræðu um hvort hann vissi um einhvern góðan markað sem seldi nýjar æðar eða notuð, vel með farin líffæri, þá fór jafnvel hann að kaupa öðruvísi inn.“ Sem sagt fyrsta skrefið í breyttu mataræði er afar einfalt: Lesa utan á umbúðir. Þættir eins og lífræn ræktun skipta líka miklu máli, því í lífrænni ræktun eru ekki notuð ýmis óholl efni eða eitur við ræktunina. Þarna segja sumir „Vúppss!!“ hingað og ekki lengra! Ég er til í að kaupa aðeins meira kál og pínu minna kjöt, en að fara að eltast við svona tiktúrur, nej tak. En tökum salatkál sem dæmi. Á meðan á ræktuninni stendur er það sprautað oftar en einu sinni og oftar en tvisvar til að drepa kálflugur, maðka og fleira. Blöðin á kálinu eru þunn og opin og sjúga afar auðveldlega í sig eitrið. Í svona tilfelli er ekkert sérstaklega hollt að borða sprautað kál, sérstaklega fyrir lítil börn. En við erum heppin því á Íslandi er hægt að fá eiturefnalaust salatkál allt árið í hring og það fæst í öllum stórmörkuðum sem og hjá kaupmanninum á horninu. Og góðu fréttirnar eru að það liggur fyrir löggjöf um rekjanleika grænmetis sem auðveldar neytendanum aðgengi að góðu hráefnil Jæja núna eru kannski sumir sem halda að þeir látist samstundist eftir neyslu á sprautuðum vörum, bara róleg, þetta er ekki svo slæmt,en við þurfum að nota heilbrigða skynsemi í bland við það sem í boði er hverju sinni. Víða erlendis þar sem miklu meiri hefð er fyrir því að borða mikið af góðu grænmeti, baunum og heilu korni en hérlendis, vilja góðir matreiðslumenn oft eingöngu nota lífrænt ræktað hráefni. Og þeir eru ekkert endilega að hugsa um eitrið og næringuna, heldur um BRAGÐIÐ númer 1,2,og 3. Prufið að taka gulrót innflutta ólífræna gulrót og bera hana saman við góða gulrót úr garðinum ykkar eða frá einhverjum góðum íslenskum bónda. Hvað er líkt með þeim? Alveg rétt, liturinn. Það er það eina sem þær eiga sameiginlegt þessar tvær gulrætur. Fiskibollur til dæmis, þær flokkast undir HEILSUFÆÐI ef þær eru heimatilbúnar úr góðum hökkuðum fiski, fíntsöxuðum lauk og góðu kryddi. Hægt er að nota egg til að halda þessu saman sem og smá hrísmjöl eða gott heilhveiti. En um leið og búið er að bæta hvítu hveiti, seson all með MSG kryddi og öðrum unnum og tilbúnum efnum útí, þá flokkast þær ekki undir heilsufæði, samkvæmt minni skilgreiningu. Til umhugsunar: Ég heyri einstaka sinnum af fólki sem ætlar að breyta um mataræði, pantar sér grænmetisrétt, fær í magann og er þar með á hreinu að þetta sé ekkert fyrir sig. Þessu fólki langar mig að benda á að þegar ég á sínum tíma hætti að drekka kaffi og fór að drekka vatn á morgnana í staðin þá var ég með hausverk og önnur líkamleg fráhvarfseinkenni í nokkra daga. Ég held ekki að það hafi verið af því að kaffið var svo hollt og vatnið svo óhollt………………… Ég sá eitt sinn mynd af klukku og í stað tölustafa var orðið núna; það er alltaf hægt að byrja að breyta núna……núna………núna………núna……….núna…. Gangi ykkur sem allra best Kær kveðja Solla