Heilsunudd

heildraent_nudd.jpgHeilsunudd er yfirgripsmikið því það nær yfir margar og mismunandi aðferðir sem koma frá öllum heimshornum. Fyrir þeim eru ævaforn gildi sem fylgt hafa mannkyninu í gegnum aldir og árþúsundir.

Fjölbreytileiki heilsunudds er ótvírætt kostur og heilsunuddarar eru með ólíkar áherslur við meðhöndlun, einnig er tekið mið af einstaklingum hverju sinni enda ákaflega misjafnt hvað hentar hverjum og einum. Sjá nánar á Heilsunudd.is

Nuddið í Ljósinu er eingöngu ætlað krabbameinsgreindum.

Brynja Árnadóttir nuddari hefur einnig lært nálastungur og hún býður upp á nálastungumeðferð.

 

Allt um heilsunudd

Heilsunudd er heilsubót

Heilsunudd er yfirgripsmikið því það nær yfir margar og mismunandi aðferðir sem koma frá öllum heimshornum. Fyrir þeim eru ævaforn gildi sem fylgt hafa mannkyninu í gegnum aldir og árþúsundir. Fjölbreytileiki heilsunudds er ótvírætt kostur og heilsunuddarar eru með ólíkar áherslur við meðhöndlun, einnig er tekið mið af einstaklingum hverju sinni enda ákaflega misjafnt hvað hentar hverjum og einum.

Heilsunudd hentar öllum óháð kyni, aldri eða þjóðerni. Nudd mýkir vöðva og eykur hreyfigetu líkamans, hjálpar til við losun úrgangsefna, örvar blóðflæði og súrefnisflæði, gefur góða slökun og streitulosun, er frískandi, endurnærandi og jafnvægisstillandi. Mikilvægi þess að rækta heilsuna er margsannað og hvorki heilsan né heilsuleysið fara í manngreinaálit. Heilsunudd getur verið kærkomin viðbót við aðra heilsurækt, orðið hluti af lífsstíl.

Innan heilsunudds er að finna aðferðir eins og klassískt nudd, svæðanudd, heildrænt nudd, íþróttanudd, kinesiology, triggerpunktameðferð, sogæðanudd og ilmolíufræði.

Klassískt nudd er samheiti á ýmsum formum vöðvanudds þar sem leitast er við að mýkja vöðva og ná fram slökun. Notaðar eru fjölbreyttar nuddstrokur með léttum og djúpum þrýstingi og þannig stuðlað að aukinni hreyfingu blóðrásar og sogæðavökva. Margar leiðir eru færar til að útfæra klassískt nudd en markmiðin og grunnhugsun alltaf sú sama. Mismiklum þrýstingi er beitt á vöðva og nuddað í átt að miðju líkamans þar sem útskilnaður fer fram en lausum strokum sem hafa meira með slökun að gera er oftast beitt frá miðju til útlima.

Svæðanudd er nuddform sem byggir á þeirri kenningu að í fótum og höndum, nefi og eyrum séu svæði og punktar sem tilheyra ákveðnum líffærum og líkamspörtum. Líkamanum er skipt kerfisbundið í ákveðin svæði sem eru kortlögð sem áhrifasvæði. Algengast er að beita aðferðinni á fætur með því að þrýstinudda þessi áhrifasvæði og ná þannig fram örvun eða slökun eftir því sem við á. Svæðanudd er heildrænt meðferðarform sem stuðlar að jafnvægi. Einnig gagnast vel að nota svæðanudd með öðrum nuddformum.

Heildrænt nudd gengur út frá því að hugur, líkami og sál sé ein heild og þannig stuðla að heildrænni hugsun einstaklingsins, auka meðvitund og hvetja til samspils orku og efnis. Heildrænt nudd er óbundið formum en viðmiðið er ávallt að mæta þörfum nuddþega hverju sinni sem geta verið ákaflega breytilegar. Heildrænt nudd miðar að því að greina orðsökina og vinna með afleiðingarnar, vinna út frá kjarnanum, uppsprettunni og stuðla þannig að jafnvægi. Tilgangurinn er að fara þá leið í lífinu að byrja á því að vera yfir í það að gera og enda á því að hafa.

Íþróttanudd er hefbundið strokunudd sem er sérhæft fyrir íþróttafólk. Það hentar vel bæði fyrir keppnisfólk og þá sem æfa sér til heilsubótar. Íþróttanudd frískar og mýkir vöðva, einnig er lögð áhersla á upphaf og festur vöðva við liðamót. Markmiðið er að reyna að koma í veg fyrir álagsmeiðsli með mýkingu vöðvaog auðvelda losun úrgangs úr þeim og upptöku næringarefni. Vöðvateygjur eru nauðsynlegur þáttur í æfingum íþróttafólks. Rétt teygður líkami er betur undirbúinn fyrir átök og minni líkur eru á álagsmeiðslum.

Kinesiology er unnin út frá sömu lögmálum og kínverska nálastungukerfið byggist á. Stuðst er við þá kenningu að hægt sé að hafa áhrif á orkuflæði líkamans með punktanuddi. Áhersla lögð á kínversk náttúruvísindi (TCM), hugmyndafræðina bak við yin og yang, elementin fimm, legu og virkni orkubrautanna fjórtán sem liggja um líkamann og sérhæfð vöðvatest. Miðað er við heildræna hugsun; hver og einn er hugur, líkami og sál, að heilbrigðið komi innan frá. Vera til staðar, vakna til meðvitundar og upplifa þessa þætti sem órjúfanlega heild sem vinna saman að bættri heilsu og aukinni vellíðan.

Triggerpunktameðferð er markviss og áhrifarík við verkjum í vöðvum. Stuðst er við kortlagningu triggerpunkta sem gerð hefur verið af mannslíkamanum. Ekki er alltaf hægt að meðhöndla verk frá triggerpunkti með því að vinna á vöðva þar sem verkinn er að finna því hver punktur getur leitt til nær- og fjærliggjandi svæða. Triggerpunktameðferð beinist að því að beita þrýstingi á þá punkta sem valda verknum til að losa þá, yfirleitt eru þeir sárir. Einnig er notast við nudd, hitameðferð, kælimeðferð og teygjur.

Sogæðanudd er kerfi nuddstroka sem miðast við að örva og styrkja sogæðakerfi líkamans. Notaðar eru léttar strokur til að færa sogæðavökva að næsta eitlakerfi til hreinsunar. Aðal ávinningur nuddsins er að hraða hreinsun úrgangsefna úr líkamanum, vinna gegn óæskilegri vökvasöfnun ásamt því að gefa góða slökun. Sogæðakerfið hefur ekki dælu eins og blóðrásarkerfið heldur er flæði þess háð hreyfingu nærliggjandi vöðva og líffæra. Mikið álag og kyrrstöður skerða afköst sogæðakerfisins.

Ilmolíufræði. Ilmolíur eru unnar úr hreinum ilmkjörnum plantna sem hafa verið einangraðar með nákvæmum aðferðum. Ilmur þeirra og mýkt örvar skynfærin og virk efni þeirra fara gegnum húðina, þannig í blóðrás og sogæðakerfi og auka þar með virkni meðferðarinnar. Alltaf þarf að blanda þær í réttu hlutfalli við aðrar olíur eða krem til að tryggja öryggi við notkun og til að ná fram hámarksvirkni. Blöndun miðast við þarfir hvers og eins hverju sinni. Olíurnar geta verið ofnæmisvaldandi og ætti því að gæta varkárni við notkun þeirra.

Fengið frá Félagi íslenskra heilsunuddara

Helstu upplýsingar

Fyrir hverja: Krabbameinsgreinda

Nuddarar: Brynja Árnadóttir, Hafþór Helgi Helgason og Dominika

Verð: 7000.-

Tímapantanir í síma 561-3770