Opnir tímar fyrir allt fólk sem nýlega hefur greinst með krabbamein. Þátttakendur sem eru í svipuðum sporum fá fræðslu frá fagaðilum með fjölbreytta reynslu. Tækifæri gefst fyrir umræður og þannig stuðning til að takast á við breytt lífsskilyrði í kjölfar veikinda.
Markmið:
Að nýgreindir fái fræðslu, umræður og vandaða fyrirlestra ásamt stuðning til að takast á við breytt lífsskilyrði í kjölfar veikinda og létt geta undir í uppbyggingarferlinu. Þeir fagaðilar sem flytja erindi hafa allir unnið með krabbameinsgreindum og hafa víðtæka reynslu og skilning á aðstæðum þátttakenda. Umsjón með fræðslunni er í höndum iðjuþjálfa, en aðrir sérfræðingar flytja einnig erindi.
Ert þú ný/r í Ljósinu? Spjall og styrking er vettvangur til að hitta aðra í sambærilegum aðstæðum og fá stutta fræðslu um margvísleg málefni og umræður um bjargráð.
Dagskrá sumarsins 2023
15. júní Louisa, iðjuþjálfi
Daglegar venjur og sumartíminn
Hvaða venjur virka fyrir þig? Hver er forgangsröðunin þín í daglegu lífi og ertu að taka mið af stöðunni eins og hún er í dag? Í fyrsta tíma Spjall og styrkingar leiðir Louisa Sif iðjuþjálfi umræðuna um venjur, vana og jafnvægi í daglegu lífi. Einnig hvernig sumartíminn getur verið tími tilhlökkunar en breyttar aðstæður geta verið áskorun.
22. júní Elísabet Heiður, næringarfræðingur og næringarinnsæisráðgjafi
Bætt mataræði. Hvað er nú það?
Fjallað verður um leiðina að bættu mataræði. Hvernig heilbrigt mataræði er ekki bara það sem við látum ofan í okkur. Gefin verða góð ráð til að byrja að bæta mataræðið og samband okkar við mat og líkama.
29. júní Áslaug Helga, yfirsjúkraþjálfari Ljóssins
Hreyfing
Öll hreyfing skiptir máli! Að stunda hreyfingu á meðan krabbameinsmeðferð stendur skiptir öllu. Hreyfingin hjálpar okkur að draga úr aukaverkunum. Við öðlumst aukið þrek, styrk og úthald með hreyfingu og einnig getur hreyfing minnkað depurð, kvíða og einangrun. Þjálfarar Ljóssins fara yfir hvað hreyfing skiptir miklu máli sama hversu mikil/lítil hún er!
6. júlí Helga Jóna, iðjuþjálfi og fjölskyldumeðferðarfræðingur
Fjölskyldan og samskipti
Krabbameinsgreining hefur áhrif á alla fjölskylduna. Helga Jóna iðjuþjálfi og fjölskyldumeðferðarfræðingur ræðir áhrif þess og breytingar í fjölskyldunni í kjölfar greiningar. Farið yfir hjálplega þætti í aðlögunarferlinu og samskipti innan fjölskyldunnar.
13. júlí Berglind iðjuþjálfi
Að virkja nærumhverfið
Hvað erum við að tala um þegar við tölum um nærumhverfi okkar? Liggja tækfæri almennt í okkar nærumhverfi? Tökum samtalið saman og rannsökum hvað felst í því hugtaki. Markmiðið er að auka meðvitund okkar um tækifærin og jafnvel hindranirnar sem liggja þar.
20. júlí Slökun – Margrét Arna, jógakennari og íþróttafræðingur
Slökun
Slökun er ekki bara fyrir ketti heldur líka okkur mennina. Þegar við slökum meðvitað á eykst orka og það dregur úr líkamlegum einkennum sem tengjast streitu. Margrét Arna jógakennari, með meiru, segir frá hinum margvíslegum aðferðum slökunar, hvernig hún nýtist og leiðir að lokum þátttakendur í gegnum slökun.
27. júlí Elín Kristín sálfræðráðgjafi
Þrautseigja
Hvað er þrautseigja? Hvað felst í henni? Rætt verður um það hvernig þrautseigja getur hjálpað í gegnum það að greinast með krabbamein og ferlið sem fylgir því. Umræða verður um hvaða leiðir þátttakendur námskeiðs nýta sér nú þegar til að auka vellíðan og hverjar aðrar leiðir geta bætt úr líðan og eflt þrautseigju. Tíminn endar með leiddri hugleiðsluæfingu.
10. ágúst Guðrún iðjuþjálfi
Streita og bjargráð
Streita verður þegar áreitið er ekki í samræmi við getu einstaklingsins til að ráða við það. Þessi áreiti geta verið meðvituð eða ómeðvituð og streituvaldarnir hvort sem er ytri atburðir eða innri þættir einstaklinga. Að takast á við streitu er orkukrefjandi og orka er ósjaldan af skornum skammti því er ein algengasta, en jafnframt ómeðhöndlaðasta, aukaverkun krabbameinsmeðferðar. Guðrún Friðriks iðjuþjálfi fer hvernig hægt er að temja sér orkusparandi aðferðir, aðlaga hugsun að léttara lífi og finna bjargráð við streitu.
10. ágúst Elín Kristín sálfræðiráðgjafi
Sjálfsmynd
Hver er ég? Hvað get ég gert? Á hverju hef ég stjórn? Áhrif krabbameinsgreiningar og -meðferðar á sjálfsmyndina verður rædd og hvernig hægt er að gefa gaum að orðanotkun sinni, setja mörk og gæta eigin hagsmuna. Umræða verður um það hvernig við getum fylgst með sjálfsmynd okkar út frá því sem við gerum og gerum ekki. Tíminn endar á hugleiðsluæfingu fyrir sjálfsmyndina.
17. ágúst Matti Ósvald, markþjálfi og heildrænn heilsufræðingur
Markmiðasetning
Það er draumur að komast á tunglið, en að smíða geimskutlu til að komast þangað er markmið. Veist þú hvert þig langar til að fara? Hvað þig langar til að gera? Ef þú veist ekki hvert þú stefnir á morgun, í næstu viku eða í næsta mánuði skiptir engu máli hvað þú gerir í dag. Skoðaðu markmiðasetningu með Matta markþjálfa í þessum síðasta tíma Spjalls og styrkingar sumarsins
Næsta námskeið
Spjall og styrking
Sumar 2023
Fimmtudagar frá 10:30 – 12:00
Umsjón fræðslunnar er í höndum fagaðila í Ljósinu
Fræðslan er þátttakendum að kostnaðarlausu
Skráning hér fyrir neðan og frekari upplýsingar í síma 561-3770