Opnir tímar fyrir allt fólk sem nýlega hefur greinst með krabbamein. Þátttakendur sem eru í svipuðum sporum fá fræðslu frá fagaðilum með fjölbreytta reynslu. Tækifæri gefst fyrir umræður og þannig stuðning til að takast á við breytt lífsskilyrði í kjölfar veikinda.
Markmið:
Að nýgreindir fái fræðslu, umræður og vandaða fyrirlestra ásamt stuðning til að takast á við breytt lífsskilyrði í kjölfar veikinda og létt geta undir í uppbyggingarferlinu. Þeir fagaðilar sem flytja erindi hafa allir unnið með krabbameinsgreindum og hafa víðtæka reynslu og skilning á aðstæðum þátttakenda. Umsjón með fræðslunni er í höndum iðjuþjálfa, en aðrir sérfræðingar flytja einnig erindi.
Dagskrá:
- júlí – Líðan, virkni og stuðningur
Hvernig líður þér? Hvað ert þú að gera þegar þér líður vel? Gerir þú nóg af því? Hvaða stuðningur hentar þér og hvert getur þú sótt hann? Í fyrsta tíma Spjalls og styrkingar leiðir Guðbjörg Dóra iðjuþjálfi umræðuna um líðan, hvað þú getur gert til að bæta hana og hvert þú getur leitað eftir stuðningi.
- júlí – Þreyta – orkusparandi aðferðir
Þreyta er ein algengasta en jafnframt ómeðhöndlaðasta aukaverkun krabbameinsmeðferðar. Hún hefur mikil áhrif á lífsgæði og líðan og í þessum tíma fer Guðrún iðjuþjálfi yfir það hvernig hægt er að temja sér orkusparandi aðferðir og aðlaga hugsun að léttara lífi.
- júlí – Sjálfstyrkur, sjálfsmynd
Hver er ég? Hvað get ég gert? Á hverju hef ég stjórn? Áhrif krabbameinsgreiningar og -meðferðar á sjálfsmyndina og sjálfsstyrk verður rædd og hvernig hægt er að gefa gaum að orðanotkun sinni, setja mörk og gæta eigin hagsmuna. Elín sálfræðingur/Guðrún iðjuþjálfi ræðir hvernig við getum fylgst með sjálfsmynd okkar og sjálfsstyrk út frá því sem við gerum og gerum ekki.
- júlí – Slökun
Slökun er ekki bara fyrir ketti heldur líka okkur mennina. Þegar við slökum meðvitað á eykst orka og það dregur úr líkamlegum einkennum sem tengjast streitu. Margrét Arna jógakennari, með meiru, segir frá hinum margvíslegum aðferðum slökunar, hvernig hún nýtist og leiðir að lokum þátttakendur í gegnum slökun.
- ágúst – Streita og bjargráð
Streita verður þegar áreitið er ekki í samræmi við getu einstaklingsins til að ráða við það. Þessi áreiti geta verið meðvituð eða ómeðvituð og streituvaldarnir hvort sem er ytir atburðir eða innri þættir einstaklinga. Í þessum tíma ræðir Rúna iðjuþjálfi um streitu og hvernig er hægt að taka á henni þannig að hún valdi ekki andlegum-, líkamlegum- eða félagslegum skaða.
- ágúst – Fjölskyldan og samskipti
Krabbameinsgreining hefur áhrif á alla fjölskylduna og allir fjölskyldumeðlimir verða að aðlagast breyttum aðstæðum og hlutverkum. Helga Jóna iðjuþjálfi og fjölskyldumeðferðarfræðingur segir frá samskiptum innan fjölskyldna í þessum tíma, ræðir opnar og lokaðar fjölskyldur og hjálplega þætti í aðlögunarferlinu.
- ágúst – Markmiðasetning
Það er draumur að komast á tunglið, en að smíða geimskutlu til að komast þangað er markmið. Veist þú hvert þig langar til að fara? Hvað þig langar til að gera? Ef þú veist ekki hvert þú stefnir á morgun, í næstu viku eða í næsta mánuði skiptir engu máli hvað þú gerir í dag. Skoðaðu markmiðasetningu með Önnu Siggu iðjuþjálfa í þessum síðasta tíma Spjalls og styrkingar sumarsins.
Næsta námskeið
Fræðsla hefst mánudaginn 6. júlí 2020
10:30-12:00
Frekari upplýsingar í síma 561-3770