Það er hjálplegt að leyfa barni að vera þátttakandi í meðferðinni og daglegri rútínu foreldris.

Góðar fjölskyldustundir eru mikilvægar. Þrátt fyrir erfiðleikana er nauðsynlegt að halda í hefðir, venjur, afmælis- og hátíðisdaga. Gera hluti með barni sem krefst ekki mikillar orku eins og að spila á spil og horfa á bíómynd.

Hvert barn þarf sína stund með veiku foreldri og gott er að gera það daglega ef hægt er, jafnvel þó um stuttan tíma sé að ræða í hvert skipti.

Börn þurfa snertingu, faðmlag og ítrekun á að þau séu elskuð. Að tala um sjúkdóminn, hafa opin samskipti og tíma saman, gefur barni þau skilaboð að fjölskyldan muni sameiginlega komast yfir erfiðleikana.

Að vera þátttakandi
Það er hjálplegt að leyfa barni að vera þátttakandi í meðferðinni og daglegri rútínu foreldris. Finna handa því hlutverk sem það ræður við. Börnum líður betur ef þau fá verkefni í hendur og upplifa þá frekar að þau hafi stjórn á aðstæðum. Það er hægt að biðja þau að teikna mynd sem hægt er að fara með í meðferðina og hjálpa til við matseld. Það er gott þegar börn finna að þau geri gagn og eru mikilvæg. Það er líka nauðsynlegt að þau hafi tíma til að leika sér eins og áður.

Börn geta hjálpað til og gert marga gagnlega hluti fyrir fjölskyldu sína í gegnum sjúkdómsferlið. Þau geta áfram gert sína hefðbundnu hluti eins og fara í skólann, á æfingar og hitta vini. Það er mikilvægt að foreldrar gefi börnum leyfi til að gera áfram það sem þeim langar til að gera.

Börn þurfa oft hvatningu að gera eitthvað skemmtilegt þar sem þau hafa tilhneigingu til að upplifa sektarkennd ef gaman er hjá þeim þegar foreldri líður illa.

Það hjálpar að tala um hlutina og það er gott að gefa barni leyfi til að ræða veikindi við þann sem það treystir.

Kennarar þurfa að vita hvað er að gerast hjá fjölskyldunni til að geta áttað sig á breytingu í hegðun og hjálpað barninu ef þörf er á. Þeir eiga þá auðveldara með að grípa inn ef umræður verða hjá öðrum börnum um veika foreldrið.

Kennarar, vinir, þjálfarar, nágrannar og ættingjar geta verið mikilvægur stuðningur.