Þegar fjölskyldumeðlimur greinist með krabbamein hefur það áhrif á fjölskylduheildina. Hver fjölskyldumeðlimur sinnir ákveðnu hlutverki innan fjölskyldunnar og veikindi eins og krabbamein hefur þar áhrif. Krabbamein getur ógnað tengslum, samskiptum, hlutverkum, valdastöðu og heilindum innan fjölskyldunnar. Fjölskyldukerfið er eitt mikilvægasta og nánasta félagskerfi einstaklings.

Í flestum tilvikum er heimilið það umhverfi þar sem sjúklingurinn ætlar sér að ná bata og heilun frá krabbameini.

Fjölskyldan hefur áhrif á marga þætti krabbameinsreynslu eins og ákvörðun um læknismeðferð og almennt bataferli. Krabbamein veldur fjölskyldunni miklu álagi og streitu samt þarf hún að vera hvað virkust á mjög viðkvæmum tímapunkti.

Fjölskyldan er krafin um að:

  • taka þátt í erfiðum ákvörðunum
  • sjá um fjármagn
  • keyra og sækja
  • fá upplýsingar og fræðslu
  • sjá um samskipti við heilbrigðisfólk
  • hjálpa til með meðferð og næringu heima fyrir
  • sjá um umönnun
  • sjá um andlegan stuðning
  • vekja von fyrir framtíðinni
  • setja sínar þarfir á bið

Viðbrögð
Nokkrir grunnþættir einkenna flestar fjölskyldur hvað varðar viðbrögð við krabbameini. Fjölskyldur geta upplifað hjálparleysi, öryggisleysi og tilvistarkreppu. Fjölskyldur upplifa sig ekki lengur hafa stjórn á tilveru sinni. Lífshættulegur sjúkdómur ógnar tilverunni og minnir óneitanlega á dauðleika manneskjunnar. Hann vísar í dauðleikann jafnvel þó um góðar batahorfur sé að ræða.

Viðbrögð fjölskyldu geta því oft verið kvíði, þunglyndi, viðkvæmni, aðskilnaðarkvíði, einmannaleiki, afneitun, sorg, vonbrigði, reiði samviskubit, eftirsjá og örvinglun.
Rannsóknir sýna að það er erfitt fyrir fjölskyldur að horfa á ástvin sinn þjást og þær upplifa hjálparleysi. Erfiðar meðferðir sem aldrei taka enda og sá tími allur sem í það fer veldur miklu álagi á fjölskylduna. Fjölskyldumeðlimir fara stundum að óska þess að þessu fari að ljúka þegar um er að ræða erfiðan og langvarandi sjúkdómsferil. Slíkar hugsanir geta valdið sektarkennd og vanlíðan sem enginn vill tjá sig um. Þessar flóknu tilfinningar geta haft valdamikil áhrif á líðan fjölskylduheildarinnar.

Þegar fjölskyldan er að ganga í gegnum lífslokameðferð með ástvini sínum, er gæði tímans mikilvægari en magn. Það er flestum mikilvægt að geta verið í umhverfi sem leyfir tilfinningum og mismunandi þörfum að koma fram án þess að það valdi vonbrigðum og streitu. Fjölskyldur sætta sig við dauðaferlið á mismunandi hátt. Fyrir sumar fjölskyldur er það áskorun að rifja upp minningar, gera upp ágreining, koma mikilvægum upplýsingum á framfæri og merkingabærum hinstu kveðjum.
Það er minna vitað um áhrif krabbameinsgreiningar á fjölskyldumeðlimi eftir að meðferðum líkur. Fjölskyldan getur óttast endurupptöku sjúkdóms og upplifað reiði, óöryggi og kvíða fyrir því að krabbameinið taki sig upp aftur.