Bókahorn

foreldri-krabbamein.jpgÞegar foreldri fær krabbamein | Forlagið

Í bókinni Þegar foreldri fær krabbamein er fjallað á hreinskilinn og nærfærinn hátt um það krefjandi verkefni að ala upp börn og lifa gefandi fjölskyldulífi þegar foreldri glímir við krabbamein. Bókinni er ætlað að auðvelda foreldrum og aðstandendum að ræða við börn um erfið veikindi og takast á við það sem þeim fylgir.

Barnabókin Begga og áhyggjubollinn fylgir með fræðslubókinni en það er myndskreytt saga um sjö ára stúlku sem á móður með krabbamein. Sagan er sögð út frá sjónarhorni barnsins og er ætluð til lestrar með eða fyrir börn í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Bækurnar tvær eru skrifaðar af Wendy S. Harpham, lækni og þriggja barna móður, sem glímdi við krabbamein um nokkurra ára skeið.

Bókin er gefin út í samstarfi við Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess.

 

bleikurbarmur.jpgBleikur barmur – barátta mín við krabbamein | Forlagið

Í bókinni er rakin saga Dórótheu þar sem grunur vaknar um að ekki sé allt í lagi, greiningarferlið, aðgerðin, samskipti við fólkið í kringum hana og flækjur sem geta skapast – hvernig færa má saumaklúbbnum fréttirnar, hárleysi og hárkollur, nýtt barn og flókin skref í átt að nýju lífi eftir krabbamein. Í frásögn sinni beitir hún húmor og býr sér til ísbrjóta eins hún kallar það. Sápukúlusyndróm og loftbóluheilkenni koma við sögu í þessari einlægu frásögn.

Þetta á erindi til þeirra sem hafa sjálfir greinst, eru aðstandendur eða áhugasamir um sjúkdómsgreiningu sem þessa og þau áhrif sem það hefur líkamlega og andlega á einstakling að ganga í gegnum þessa lífsreynslu.

Höfundur: Dóróthea Jónsdóttir

 

 

bragd_baratta.jpgBragð í baráttunni | Forlagið

Bragð í baráttunni – matur sem vinnur gegn krabbameini er ný bók sem hefur vakið athygli víða um heim, enda er hér um tímamótarit að ræða. Bókin heitir á frummálinu Cooking with foods that fight cancer . Bókin er gefin út af Vöku-Helgafelli að frumkvæði Krabbameinsfélagsins Framfarar

Bókin, sem er aðgengileg, litrík og listilega hönnuð, hefur að geyma ítarlega umfjöllun um ýmis hráefni í matargerð sem talið er að geti unnið gegn myndun krabbameina. Þar eru einnig að finna yfir 160 gómsætar uppskriftir sem auðvelt er að fara eftir.

 

er_litid_mein.jpgEr lítið mein yfirtók líf mitt |Salka

Í formála bókarinnar segir Lilja Sólrún:

„Aukaverkanir hinna ýmsu krabbameinslyfja eru mjög breytilegar og fólk þolir þær misjafnlega vel eða illa. Í mínu tilfelli varð líðanin ákaflega slæm og ég hef hitt konur sem hafa svipaða reynslu. Ég á mér ósk um að frásögn mín geti stuðlað að betri skilningi á líðan og þörfum fólks sem lendir í þeim hörmungum að greinast með krabbamein og fá miklar aukaverkanir vegna meðferðar.

En ég samgleðst öllum sem fá litlar og jafnvel engar aukaverkanir. Markmiðið er alltaf eitt, að sigrast á meininu.“

Höfundur: Lilja Sólrún Halldórsdóttir

 

 

Krabbameinið hennar mömmu | Karitaskrabbameinid_hennar_mommu.jpg

Karitas hefur gefið út barnabókina „Krabbameinið hennar mömmu“ eftir Valgerði Hjartardóttur. Valgerður er hjúkrunarfræðingur, djákni og fjölskyldumeðferðarfræðingur.

Krabbamein er fjölbreyttur og víðtækur sjúkdómur sem herjar á margar fjölskyldur. Tilgangur bókarinnar er að skapa umræður milli foreldra og barna um sjúkdóminn, meðferðir, tilfinningar og þær breytingar sem geta átt sér stað hjá fjölskyldunni.

Barnabókin segir sögu Eddu sem er 7 ára lífsglöð stúlka, þegar móðir hennar greinist með krabbamein. Edda segir frá daglegu lífi sínu og fjölskyldunnar á meðan sjúkdómsferli móður hennar stendur.

Bókin er til sölu hjá Kirkjuhúsinu og Eymundson . Einnig er hægt að kaupa bókina hjá Karitas hjúkrunar- og ráðgjafarþjónustu, www.karitas.is, sími 551-5606, eða senda póst til karitas@karitas.is.