Við í Ljósinu erum ótrúlega þakklát fyrir þann hlýhug og stuðning sem við fáum frá Sjóvá, sem hefur staðið með Ljósinu í tengslum við Ljósafossinn síðustu ár. Í ár hefur Sjóvá ákveðið að tvöfalda styrk sinn og styrkja Ljósið um 2.000 krónur fyrir hvern þátttakanda sem mætir við Esjurætur laugardaginn 15. nóvember. Þessi rausnarlegi stuðningur mun hjálpa okkur að efla starf Ljóssins og ná til enn fleiri sem þurfa á endurhæfingu og stuðningi að halda eftir krabbameinsgreiningu.
Ljósafossinn fer fram laugardaginn 15. nóvember. Við hittumst við Esjurætur kl. 15:30 og kl. 16:00 verður gengið upp að Steini og síðan niður aftur með höfuðljós tendruð, þar sem ljósin mynda fallegan Ljósafoss í myrkrinu. Þau sem treysta sér ekki upp fjallið eru að sjálfsögðu hjartanlega velkomin að hitta okkur við Esjurætur, það eitt að mæta og standa með okkur skiptir máli. Öll sem mæta við Esjurætur teljast með í styrk Sjóvá.
Við viljum innilega þakka Sjóvá fyrir að standa með Ljósinu ár eftir ár og sýna starfinu okkar svona mikinn hlýhug.
Aðgangur er ókeypis og öll velkomin!
Nánari upplýsingar má finna í viðburðnum okkar á Facebook.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.






