Nettó hleypir af stað styrktarátaki í dag, mánudaginn 21. júlí, til stuðnings Ljósinu – endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem greinst hefur með krabbamein. Með átaksverkefninu vill Nettó leggja sitt af mörkum til Ljóssins sem nú safnar fyrir nýju og stærra húsnæði.
Kjarninn í verkefninu er sala á taupokum og slæðum, skreyttar verki listamannsins Steingríms Gauta, í verslunum Nettó um land allt og í móttöku Ljóssins. Allur ágóði rennur óskiptur til Ljóssins.
„Það gleður okkur að geta stutt við Ljósið með þessu átaki og nýtt verslanir okkar vítt og breitt um landið til að vekja athygli á starfseminni,“ segir Bóas Ragnar Bóasson, rekstrarstjóri Nettó.
Um listamanninn
Steingrímur Gauti Ingólfsson (f. 1986) er myndlistarmaður sem býr og starfar í Reykjavík. Hann lauk BA-prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2015 og hefur tekið þátt í fjölbreyttu sýningarhaldi bæði hér heima og erlendis. Meðal nýlegra einkasýninga hans eru Chop Wood, Carry Water í Galerie Marguo í París og Lingering Space hjá Listval. Verk hans má finna í bæði opinberum og einkasöfnum víða um heim — allt frá Evrópu og Bandaríkjunum til Asíu.
Myndmál Steingríms fangar kjarnann í verkefninu á áhrifaríkan hátt. Á slæðum og pokum verkefnisins mætast hlýja Ljóssins og sá skuggi sem krabbamein varpar yfir líf fólks — birtingarmynd ljóss í myrkri.
Steingrímur hefur lengi haft hug á starfsemi Ljóssins. Þegar hann var boðinn þátttaka í verkefninu þáði hann það með einlægum áhuga. „Afi minn fór í endurhæfingu hjá Ljósinu á sínum tíma og leið þar vel,“ segir hann og bætir við að orkan í húsinu hafi verið „jákvæð og falleg – næstum því áþreifanleg“ við fyrstu kynni. Þátttakan varð honum sjálfsögð: „Sem listamaður er maður oft mikið fastur í sjálfum sér, þannig að mér finnst mikilvægt að nýta öll tækifæri sem gefast til að gefa eitthvað til baka.“
Í samstarfi við Ljósið og Nettó var valið eitt af verkum hans, án titils, sem birtist nú á gjafavörunum. Steingrímur er ánægður með niðurstöðuna: „Mér finnst útkoman koma virkilega vel út – eiginlega miklu betur en ég þorði að vona.“ Hann hefur ávallt kosið að gefa verkum sínum ekki heiti og útskýrir það svo: „Verkin mín fjalla í raun ekki um annað en sig sjálf og sjónræn áhrif þeirra á áhorfandann.“
Með sinni djúpu nálgun á fagurfræði og tilvistarmál nær Steingrímur að skapa myndheim sem bæði hrífur og vekur til umhugsunar. Hann lýkur því með hlýjum orðum til samstarfsaðila: „Ég er stoltur að hafa fengið að taka þátt í þessu verkefni og óska öllum sem tengjast Ljósinu innilega alls hins besta.“
Krabbamein kemur öllum við
Ljósið veitir öllum 16 ára og eldri sem greinast með krabbamein endurhæfingu og stuðning. Ljósið veitir einnig þjónustu við aðstandendur og hefur gert frá upphafi því krabbamein getur haft mikil áhrif á fjölskyldumeðlimi þess sem greinist. Aðstandendum gefst kostur á að koma í viðtal til fagaðila í Ljósinu, hvort sem það er í formi einstaklingsviðtal eða ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum auk þess sem sérnámskeið eru reglulega haldin fyrir aðstandendur allt frá 6 ára aldri.
Ljósið byggir á hugmyndafræði iðjuþjálfunar og áhersla er lögð á heildræna nálgun. Sérhæfð endurhæfing þar sem fagfólk aðstoðar krabbameinsgreinda að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek, auk þess að fá stuðning við að setja sér markmið sem auka daglega virkni og hafa þannig áhrif á lífsgæði almennt.
„Stuðningur Nettó við Ljósið skiptir sköpum. Ekki bara til að safna í húsnæðissjóð Ljóssins heldur einnig við að vekja athygli á mikilvægi endurhæfingar krabbameinsgreinda sama hvar maður er búsettur og þar koma þau sterk inn enda með verslanir um allt land.“ segir Eva Guðrún Kristjánsdóttir, sérfræðingur í samskiptateymi Ljóssins.
Vörusala fram yfir verslunarmannahelgi
Það er ómetanlegt að finna fyrir hlýju, stuðningi og von þegar lífið tekur óvænta og erfiða stefnu. Með því að kaupa taupoka eða slæðu skreytta verki Steingríms Gauta styður þú við starfsemi Ljóssins og hjálpar til við að lýsa upp dagana hjá þeim sem standa í miðju krabbameinsferlisins – og þeirra ástvina.
Vörurnar verða til sölu frá og með mánudeginum 21. júlí í öllum verslunum Nettó um land allt, sem og í móttöku Ljóssins. Allur ágóði rennur óskiptur til Ljóssins og rennur í sjóð fyrir nýtt og stærra húsnæði þar sem enn fleiri geta notið þjónustunnar.
Hvort sem þú kaupir fyrir sjálfan þig eða sem fallega gjöf, þá skiptir það máli. Með litlu framlagi getur þú lagt þitt af mörkum og orðið hluti af stærra samfélagi samkenndar, bata og kærleika. Því það er rétt – krabbamein kemur okkur öllum við.
Starfsfólk Ljóssins stefnir á að láta sjá sig í einhverjum af vel völdum verslununum Nettó á næstu vikum, vonandi sjáum við ykkur sem flest!

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.






