Nú höfum við ýtt úr vör nýju verkefni með yfirskriftina: Hópar landsins láta Ljósið skína!
Verkefnið sýnir hvernig endurhæfingin og stuðningurinn í Ljósinu hefur margföldunaráhrif inn í margvíslega hópa sem þjónustuþegarnir okkar tilheyra. Hvernig Ljósið grípur hópmeðlim þegar hann greinist með krabbamein, og veitir honum stuðning þegar hópurinn hefur ekki ráðrúm eða burði til.
Með herferðinni eru hópar landsins; vinahópar, saumaklúbbar, gönguhópar, sjósundsgrúbbur, kórar, fjölskylduhópar og allir hinir hóparnir hvattir til að hópast í kringum Ljósið og tryggja að endurhæfingarstarfið geti áfram tekið á móti þeim sem greinast með krabbamein, án kostnaðar eða biðlista. Nánast öll þjónusta Ljóssins er veitt án endurgjalds og tryggir mánaðarlegt framlag Ljósavina meðal annars ókeypis námskeið og fræðslu, líkamlega endurhæfingu og viðtöl hjá fagaðilum eins og iðjuþjálfa, sálfræðingi, sjúkraþjálfa og fjölskyldumeðferðarfræðingi.
Í hverjum mánuði sækja yfir 600 manns þjónustu og fræðslu í Ljósið en markmið okkar frá upphafi hefur verið að bjóða okkar þjónustu að kostnaðarlausu. Til að við getum haldið úti endurgjaldslausri heilbrigðisþjónustu, treystum við á velvild einstaklinga og fyrirtækja á Íslandi. Því er markmið herferðarinnar að safna 1500 nýjum mánaðarlegum Ljósavinum. Ljósið er eina endurhæfingarmiðstöðin sem sérhæfir sig fyrir þennan mikilvæga hóp en auk þess veitum við aðstandendum stuðning og fræðslu. Það er því bersýnilegt að ansi margir munu á sinni vegferð nýta sér þjónustu Ljóssins.
Við erum stolt að segja frá því að GDRN og Magnús Jóhann lögðu Ljósinu lið í undirbúningi verkefnisins með endurútgáfu á laginu Gamli góði vinur, sem heyra má óma undir einlægu samtali þjónustuþega Ljóssins og margvíslegra vinahópa þeirra. Við viljum einnig nota tækifærið og þakka dásamlegum samstarfsaðilum fyrir þeirra óeigingjarna framlag.
Við hvetjum ykkur öll til að gerast Ljósavinir og í kjölfarið hvetja ykkar hópa til að gera slíkt hið sama. Þannig getum við náð markmiðum okkar um að taka á móti öllum Íslendingum sem greinast með krabbamein.
Smelltu hér fyrir neðan til að gerast Ljósavinur.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.