Seiglurnar eru hópur vaskra kvenna sem sigla saman, en nýverið færði hópurinn Ljósinu veglegan styrk sem safnaðist á verklegu siglinganámskeiði fyrir konur í sumar. Þessu til viðbótar söfnuðu meðlimir Seiglanna persónulega upphæðum fyrir Ljósið.
Það voru þær Sigríður Ólafsdóttir, skipstóri og forsprakki Seiglanna, og Svanhildur Sigurðardóttir, Seiglumeðlimur og þjónustuþegi í Ljósinu sem færðu Ernu Magnúsdóttur styrkinn.
Sigríður, eða Sigga, þekkir vel til starfsemi Ljóssins en móðir hennar sótti til okkar endurhæfingu sem og vinkona hennar og siglingafélagi, Svanhildur. „Ég veit fyrir víst að Ljósið hefur hjálpað henni eins og mömmu heitinni (Sólrún Guðbjörnsdóttir) sem þurfti að glíma við krabbamein í mörg ár“ sagði Sigríður á sínum miðlum þegar hún sagði frá verkefninu.
Það er greinilegt að Seiglurnar eru öflugur hópur og við þökkum Siggu og þessum magnaða siglingahóp fyrir sitt framlag til Ljóssins.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.