Sjálfboðaliðum fagnað

Sjálfboðaliðahópurinn ásamt Emmu, Boggu, Erlu og Guðrúnu

Það var mikið hlegið, sprellað og spjallað á árlegum viðburði fyrir sjálfboðaliða Ljóssins í byrjun vikunnar þar sem óeigingjörnu framlagi þeirra var fagnað.

Sjálfboðaliðar eru lykilþáttur í starfsemi Ljóssins en hópurinn býr yfir fjölbreyttri þekkingu og reynslu. Hlutverk sjálfboðaliða eru margvísleg en í dag eru 15 manns sem taka þátt í starfinu. Meðal þeirra hlutverka sem sjálfboðaliðar sinna eru handverkskennsla, aðstoð við val á hárkollum og höfuðfötum, ýmskonar viðhald og fleira.

 

Ljósið sérstakt í þeirra huga

Meðal þeirra sem voru með okkur á mánudaginn var Oddný Gunnarsdóttir sem segist upplifa að hún sé að skila einhverju til baka til málstaðar sem er henni hugleikinn með því að vera sjálfboðaliði í Ljósinu. „Það er breytt viðhorf þegar maður ákveður að gerast sjálfboðaliði“ og vísar þannig til hvatans að gefa tíma sinn utan vinnu.

„Maður er að skila einhverju til baka“ segir Trausti Aðalsteinsson og bætir við að það sé stór hluti af hans viðveru í Ljósinu að vera partur af samfélaginu sem þar er. Trausti sér um að undirbúa Strákamatinn sem fer fram öll föstudagshádegi.

„Já, og hvatinn er ekki þessi skylda heldur frekar ánægjutengd þegar maður er sjálfboðaliði“ segir Bergþór Pálmason, eða Beggi eins og við þekkjum hann en hann er allrahanda smiðurinn okkar sem ræðst í allskonar viðhaldsverk í húsakynnum Ljóssins.

Það er sannarlega létt yfir vötnum en hópurinn grínast að þau myndu eflaust ekki velja að gerast sjálfboðaliðar á dekkjaverkstæði.

 

Dýrmætt að fá að miðla þekkingu

Ljósið býður upp á fjölbreytta endurhæfingu og er boðið upp á yfir 40 dagskrárliði hverju sinni. Það gefur því augaleið að þekking sjálfboðaliða hefur mikil áhrif. „Maður er einhvers virði. Þó maður sé kominn á vissan aldur þá er maður með þekkingu og orku, og langar til að gera eitthvað, ekki sitja bara heima“ segir Sigrún Marínósdóttir sem starfaði áður sem hárgreiðslumeistari en notar þekkingu sína í dag til að aðstoða fólk við að finna sér hárkollur og höfuðföt þegar hárleysi og viðkvæm húð vegna krabbameinsmeðferða herjar á.

„Maður hefur líka þekkingu sem maður getur miðlað. Og það er góð tilfinning.“ segir Eyjólfur Guðmundsson, leiðbeinandi á fluguhnýtingarnámskeiðum Ljóssins.

 

Þakklætið er efst á baugi

„Við erum ótrúlega þakklát fyrir framlag allra okkar sjálfboðaliða sem koma að starfinu. Þau glæða daglegt starf okkar starfsfólksins og þjónustuþega lífi, en að auki færa þau fram þekkingu og reynslu sem er svo verðmæt.“ segir Emma Heiðrún Birgisdóttir sem leiðir teymið í móttöku Ljóssins. Það voru Emma, Elinborg, Erla og Guðrún Friðriksdóttir, úr starfsmannahópi Ljóssins, sem tóku þátt í stundinni fyrir hönd Ljóssins.

Við sendum sjálfboðaliðunum Ljóssins hjartansþakkir fyrir óeigingjarnt starf.

Frá efri röð vinstri: Karin, Lovísa, Sigrún, Trausti, Hildur, Eyjólfur, Fríða, Anna, Oddný og Beggi. Á myndina vantar 5 sjálfboðaliða sem verða vonandi með okkur næst.

 

 

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.