Veðurguðirnir voru okkur hliðhollir og mæting góð þegar árlega fjölskylduganga Ljóssins fór fram á Esjunni í gær.
Um 90 manns tóku þátt í göngunni en í ár var gengið upp að svokölluðum „vegamótum“ og gekk stór hluti þátttakenda alla leið. Á meðan á göngu stóð og eftir að hópurinn kom niður aftur var boðið upp á tónslökun neðst í hlíð Esjunnar.
„Ég fyllist þakklæti þegar ég sé allan þennan fjölda ljósbera samankomna með sínu fólki. Þrátt fyrir erfið veikindi og meðferðir sem fylgja lætur fólk ekki stoppa sig í að eiga góðan dag saman“ sagði Erna Magnúsdóttir forstöðukona Ljóssins að göngu lokinni.
Áður en gengið var upp sáu þjálfarar Ljóssins um upphitun og í lokin leituðu göngugarpar skjóls í tjaldi sem Skátarnir höfðu slegið upp fyrir gönguna, þar sem þeir gæddu sér á veitingum frá Ölgerðinni og Dagnýju og co.
Gleðin skein úr hverju andliti en leyfum myndunum tala sínu máli.
Kærar þakkir til allra þeirra sem tóku þátt í deginum.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.