Samkennd í eigin garð – Gullið verkfæri í gegnum erfiðleika

Eftir Elínu Kristínu Klar sálfræðiráðgjafa

 

Elín Kristín Klar

Þegar talað er um samkennd þá er það oftast gagnvart öðrum. Samkennd snýst um að sýna þeim skilning, mildi og umhyggju sem ganga í gegnum erfiðleika. En hvernig hegðum við okkur gagnvart okkur sjálfum þegar við göngum í gegnum erfiðleika? Hvernig komum við fram við okkur sjálf þegar við stöndum andspænis veikleikum okkar? Hvernig tölum við við okkur sjálf þegar við gerum mistök? Hvernig er samkennd okkar í eigin garð?

 

Íslenska lífsmottóið
„Þetta reddast“ er líklega ekki að ástæðulausu talið vera íslenska lífsmottóið og ein fyrsta setningin sem margir læra sem koma til landsins. Þessum frasa fylgir ákveðin hvatvísi og ber jafnvel með sér snert af kæruleysi og skipulagsleysi. Á sama tíma felur hann í sér mikla bjartsýni, á endanum verður allt í lagi því þetta einfaldlega reddast.  Sjálf ólst ég upp í Þýskalandi og hef alltaf upplifað Íslendinga sem mjög jákvæða þjóð miðað við Þjóðverja. Þeir eru frekar þekktir fyrir að kvarta undan hlutum, hvort sem þeir skipta miklu máli eða ekki. En eins og svo oft, þá eru tvær hliðar á sama peningnum.

 

Hvað segir þú gott?
Í Þýskalandi er það viðteknara að segja hreint út þegar manni líður ekki vel. Hér á landi getur spurningin „hvað segir þú gott?“ hljómað eins og við viljum einungis einbeita okkur að hinu jákvæða og skauta framhjá öðru. Ótalmargar rannsóknir hafa sýnt að jákvæðni og bjartsýnt viðhorf geta stutt okkur í gegnum erfiðleika. Þessar niðurstöður þýða þó alls ekki – og þar finnst mér oft misskilningurinn liggja – að það eigi að hunsa erfiðar tilfinningar eða jafnvel að okkur megi aldrei líða illa. Við eigum það til að setja óraunhæfar kröfur á okkur sjálf, næstum því eins og við eigum að vera hress og kát alveg sama hvað bjátar á. Við tæklum erfiðleika gjarnan á hörkunni og dæmum okkur svo í kjölfarið ef hlutirnir ganga ekki sem skildi. En þjáning og sársauki eru óhjákvæmilegur hluti af lífinu.

 

Gullverkfærið
Rannsóknir hafa sýnt að við komumst auðveldar í gegnum erfiðleika þegar við sýnum okkur umhyggju og skilning í stað þess að dæma okkur fyrir erfiðar tilfinningar eða óhjákvæmilegan breyskleika okkar. Rannsóknir sýna meira að segja að það getur aukið bjartsýni að temja sér aukna samkennd í eigin garð. Þessi svokallaða samkennd í eigin garð (e. self-compassion) er því gullverkfæri í gegnum erfiðleika. Þetta er ekki bara sjálfsumhyggja heldur felst í henni líka sá eiginleiki að líta á erfiða lífsreynslu og ófullkomnun sem sammannlega reynslu. Eitthvað sem er hluti af okkar tilveru. Þannig getum við  tengst öðrum og fundið að við erum ekki ein á báti í gegnum erfiðleikana. Við viðurkennum erfiðleikana eins og þeir eru án þess að ýkja þá upp né bæla þá niður.

 

Staldraðu við
Ég mæli því með að næst þegar þið standið ykkur að verki við sjálfsniðurrif eða harða gagnrýni í eigin garð að staldra við. Hugsið með ykkur hvernig þið mynduð tala við ástvin sem væri að ganga í gegnum það sama. Hvað mynduð þið segja við hann eða hana? Oft er sagt að maður eigi að koma fram við aðra eins og maður vill að komið sé fram við sig. En hvers vegna ættum við þá ekki líka að reyna að koma fram við okkur sjálf eins og við komum fram við aðra. Það getur allavega auðveldað erfiðleika lífsins.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.