Eftir Hólmfríði Einarsdóttur nema í iðjuþjálfun
Garðrækt getur bæði verið hagnýt iðja og tómstundagaman. Í aldanna raðir hefur hún verið hluti af búskap okkar mannanna en hana má einnig nýta til dægrastyttingar, til að fegra umhverfið og til að auka almenna vellíðan.
Ávinningur garðræktar hefur lengi verið þekktur og hafa rannsóknir sýnt að garðrækt hefur jákvæð áhrif á andlega heilsu okkar með því til dæmis að draga úr streitu og minnka kvíðatilfinningu. Garðræktin getur líka verið góð líkamsrækt sem bætir hreyfigetu, liðleika og handstyrk ásamt því að vera útivera sem gefur okkur hlutverk og ákveðinn tilgang.
Að gleyma stað og stund
Fólk sem nú þegar stundar iðjuna lýsir henni oft á tíðum sem góðri slökun þar sem auðvelt er að gleyma stað og stund. Þess vegna er mikilvægt að finna rétta flæðið fyrir sig svo garðræktin verði sem ánægjulegust. Þá er um að gera að ofreyna sig ekki. Því er gott að sleppa öllum þungum burði og nota viðeigandi verkfæri og hanska, vera í síðerma bol til að verja húðina, taka pásur og notast við lítinn koll eða mottu til að setja undir hnén. Einnig er mælt með því að verja fleiri styttri stundum við, frekar en að sitja lengi við í einu.
Hvað er hægt að rækta?
Vanir menn segja að auðvelt sé að rækta eigið grænmeti og kryddjurtir. Huga þarf þó að nokkrum þáttum eins og sólarljósi, staðsetningu beðsins og síðast en ekki síst hvað manni finnst nú gott af þessu öllu saman! Salat, graslaukur, kartöflur, minta og hvítlaukur er grænmeti sem ekki þarf að hafa mikið fyrir og sagt er að hvítlaukur sé sérstaklega hentugur til ræktunar fyrir þá sem eru utan við sig.
Ef áherslan er á fallegar plöntur, er gaman að blanda saman plöntum sem blómstra á sitthvorum tímanum, gefa frá sér mismunandi lykt og eru í öllum regnbogans litum. Ekki skemmir fyrir að velja sígrænar plöntur í bland. Það gefur og gleður í enn lengri tíma!
Ef enginn er garðurinn
Ekki örvænta þó þú eigi ekki garð, svalir eða jafnvel gluggi getur verið hentugur fyrir ýmsa ræktun. Fallegar pottaplöntur geta líka haft jákvæð áhrif á okkur, bætt loftgæði, skerpt á einbeitingu og minnkað þreytu.
Með hækkandi sól og vori í lofti (allavega suma daga) er tilvalið að láta hendur standa fram úr ermum, finna til fallegar jurtir eða plöntur og prufa sig áfram!
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.