Hygge – aðeins meira en kósý

Eftir Guðbjörgu Dóru iðjuþjálfa

Guðbjörg Dóra, iðjuþjálfi

Hygge er danskt hugtak og íslenska orðið kósý kemst nálægt því en nær merkingunni samt ekki alveg. Hvaða hugrenningatengsl myndast hjá þér þegar þú heyrir hygge? Hvað gerir þú þegar þú hygger? Kúrir undir teppi með kertaljós? Orðin sem detta inn þegar minnst er á hygge eru m.a. notalegt, mýkt, hlýja, vellíðan, nánd, nærvera, tengsl, rólegheit, samvera, væntumþykja, slökun, heima, friður, bústaður, gæðastundir, dempuð lýsing, hlátur og fliss.

Margt og mikið hefur verið skrifað um fyrirbærið hygge. Danskur rithöfundur; Meik Wiking, skrifaði bókina Hygge sem kom út árið 2016. Hann nefnir sex atriði sem hugtakið hygge nær utanum:

  • Skapa kósý andrúmsloft
  • Búa sér til „self-care“ emergency kit (neyðargleðibox)
  • Læra og ástunda handverk s.s. prjóna, mála
  • Elda saman – hafa matarklúbb – borða saman
  • Skapa nýjar hefðir með fólki sem mér þykir vænt um
  • Ástunda þakklæti

Er hygge í sinni tærustu mynd kannski faðmlag án líkamlegrar snertingar?

Kjarninn fjallaði um hygge árið 2017 og vitnaði í viðtal við danska mann­fræðinginn Jeppe Trolle Linn­et, sem hefur skrifað dokt­ors­rit­gerð um hygge.  „Sú stað­reynd að fólk víða um heim hefur svona mik­inn áhuga á hygge sýnir ákveð­inn hörgul á nota­leg­heitum og ró í sál­inni og lík­am­an­um.“

 

Stundum ónæmisdekur

Það er mikils virði að hafa sterkt ónæmiskerfi sem er vel í stakk búið að vinna bug á sjúkdómum og takast á við álag af ýmsu tagi. Þeir sem greinast með krabbamein verða flestir áþreifanlega varir við tilvist þessa kerfis og almenningur hefur síðastliðið ár heyrt mikið um það talað í tengslum við heimsfaraldurinn. Heilbrigðisstarfsfólk gerir sitt besta til að útskýra fyrir almenningi hvernig ónæmiskerfið virkar og í því samhengi fannst mér gott að heyra einn lækni hvetja okkur til þess að ástunda ónæmisdekur og tryggja þannig brosandi ónæmiskerfi. Hvernig gerir maður það? Ónæmiskerfið okkar þarf t.d. reglulega næði þannig að viðgerðarferlið geti farið fram.

Getur verið að liður í því að ástunda ónæmisdekur sé að „hygge“ og þá verði ónæmiskerfið okkar brosmildara? Hægt er að upplifa „hygge“ einn eða með öðrum, inni eða úti og skemmtilegt að skoða hvort við getum tengt það við öll svið daglegs lífs.

 

Vefum „hygge“ inni í daglegt líf

Í viðtölum ljósbera við fagfólk í Ljósinu eru helstu svið daglegs lífs rædd og staðan á þeim kortlögð, iðjuvandinn greindur, möguleg úrræði metin og sett er upp dagskrá endurhæfingar. Dagskráin er síðan endurmetin nokkuð reglulega. Í endurhæfingu er hvatt til þess að vera virkur í daglegu lífi, gera sér grein fyrir hvað þarf að gera, hvað er ætlast til og hvað mann langar að gera. Til að tryggja gott jafnvægi í virku daglegu lífi þarf að sjá til þess að hvert svið fái athygli og næringu, þar með talið er góð hvíld og hreyfing.

Ef við höfum einnig atriðin sex  frá Meik Wiking að leiðarljósi þá getum við ofið hygge inn í daglega virka lífið okkar og tryggt gott jafnvægi bæði ein og með öðrum.

Þá er bara að skilgreina kósýhorn á heimilinu; hreiðra um sig með tebolla í ullarsokkum, leggja áherslu á hluti og innviði úr náttúruefnum, gera mikið úr litlu og njóta í daglegu lífi.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.