Upp úr djúpum dal krabbameinsins

eftir Maríu Ólafsdóttur

Þröstur Ólafsson segir það hafa komið sér upp úr djúpum dal krabbameinsins að nýta sér þjónustu Ljóssins. Það var faðir Þrastar sem fékk frumburðinn, þá nærri sextugan að aldri, til að heimsækja Ljósið í fyrsta sinn.

Þröstur kominn upp úr dalnum og horfir björtum augum á framtíðina

„Með viðtölum við iðjuþjálfa og sálfræðinga fór andinn að lyftast í karlinum og ég fór að temja mér það eftir aðgerðir, þegar ég var svolítið langt niðri, að koma við á Langholtsveginum. Í Ljósinu tók á móti mér fólk sem fékk mig til að rífa mig upp úr þessum djúpa dal sem ég var í og létta á andlegum þyngslum. Þannig leið mér miklu betur að koma heim og þurfa ekki að leggja þau þyngsli á fjölskylduna því nóg er nú samt fyrir aðstandendur. Ég er alinn upp við að sýna ekki tilfinningar og harka af mér en í Ljósinu fór ég í fyrsta sinn að vinna almennilega úr þeim áföllum sem ég hef orðið fyrir og læra að sýna tilfinningar mínar. Svo var karlinn líka sendur í ræktina til að hreyfa sig meira og skafa utan af sér sem einnig hefur góð áhrif á andlega líðan,“ segir Þröstur.

 

„Já þá ert þú blöðrukall!“

Þröstur greindist með krabbamein í þvagblöðrunni sem blessunarlega var staðbundið. Það hefur þó tilhneigingu til að koma sífellt aftur en meininu er haldið í skefjum með reglulegri skurðaðgerð.

„Það er svo mikilvægt að hafa vettvang eins og Ljósið þar sem fólk getur sest niður og létt á sér. Ég hefði t.d. aldrei látið mér detta í hug að hægt væri að gera grín að krabbameini enda er það dauðans alvara. En eitt sinn er ég hér í Ljósinu á spjalli við fólk og einn karl spyr mig hvenær ég hafi greinst og hvar meinið liggi í mér. Mér fannst þetta svolítið viðkvæmt en bögglaði því út úr mér að það væri í blöðrunni. „Þvagblöðrunni?“ spyr þá karlinn, sem ég og samsinni, og þá spyr hann ekki í „blöðruhálskirtlinum?“, „nei“ segi ég og þá segir hann: „Já þá ert þú blöðrukall!“ Svo var bara hlegið og ég boðinn velkominn í hópinn! Það er þessi skrýtni léttleiki sem hér ríkir. Fólk er ekkert að velta sér upp úr öllu, enda er það alveg óþarfi og þú þarft miklu frekar pepp og klapp á bakið,“ segir Þröstur.

 

Með ástríðu fyrir leiklist

Þresti hefur brugðið fyrir á skjám landsmanna eins og í þessu hlutverki líks í myndinni „Mín eigin jarðaför“

Þröstur starfar í dag hjá Hvalaskoðunarfyrirtækinu Eldingu en sinnir auk þess fjölda sjálfboðaliðastarfa. Hann keyrir til að mynda Frú Ragnheiði, úrræði á vegum Rauða Krossins fyrir eiturlyfjaneytendur auk þess að vera í viðbragðshópi við náttúruhamförum og stórslysum.

Þá á leiklist hug hans allan og starfaði hann í ein 16 ár með þremur áhugaleikfélögum á Vestfjörðum. Síðastliðin ár hefur hann brugðið sér í allra kvikinda líki í ýmsum bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Glöggir lesendur gætu t.a.m. kannast við hann úr nýlegum auglýsingum fyrir skyndibitastaðinn KFC og þá fór hann með hlutverk líks í þáttunum Jarðarförin mín sem sýndir voru nýverið í Sjónvarpi Símans. Næst mun Þresti bregða fyrir í þáttunum Verbúð.

 

 

Er umhugað um að sem flestir leiti til Ljóssins

Fjölskyldan á góðri stundu

„Ég hef spurt sjálfan mig hvort manni skildi vera ætlað það að vera stuðningur fyrir aðra sem lenda í áföllum rétt eins og fólkið er að gera hér í Ljósinu. Ég er ekki almættið sjálft svo ég get ekki svarað þessu en ég er mjög mannblendinn og finn mig vel í þessu,“ segir Þröstur. Þresti er umhugað um að sem flestir leiti til Ljóssins og mikilvægt sé að halda því á lofti að innan Ljóssins starfi stuðningshópar fyrir bæði kyn og ólíka aldurshópa. Þá hafi hann leitt hugann að því gott væri að hafa til taks sjálfboðaliða sem gætu leitt fólk inn í Ljósið og kynnt þeim þjónustuna í boði.

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.