Hinn árlegi Ljósafoss niður hlíðar Esjunnar mun eiga sér stað laugardaginn 16. nóvember næstkomandi.
Í ár fögnum við 10 ára afmæli Esjuævintýranna okkar og ætlum því að hafa enn meira húllumhæ áður en við förum í fjallið.
Eins og alltaf hittumst við við Esjustofu og við byrjum að hita upp klukkan 15:00 þegar Ari Eldjárn stígur á svið og lætur okkur hlæja eins og honum er einum lagið. Í kjölfarið er von á fleiri góðum gestum en við segjum ykkur meira frá því seinna.
Við leggjum svo af stað klukkan 16:00 upp að Steini og förum svo niður með höfuðljós og myndum fallegan Ljósafoss í þann mund sem myrkrið skellur á.
Með þessum skrefum okkar vekjum við athygli á mikilvægi starfsemi Ljóssins sem er endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra.
Þorsteinn Jakobsson fjallagarpur leiðir gönguna eins og undanfarin ár og björgunarsveitin Kjölur verður á staðnum okkur til halds og trausts.
Opið verður í Esjustofu fyrir þá sem vilja koma og berja fossinn augum og eiga notalega vetrarstund, en þar verða einnig veitingar til sölu.
Í ár mun Fjallakofinn vera okkur til halds og trausts, bæði fyrir og á meðan á viðburðinum stendur og við hlökkum til að hita upp fyrir gönguna með alla þeirra reynslubolta með okkur í liði.
Við hvetjum alla gönguhópa og fjallagarpa, og hvern þann sem kann að meta vetrargöngur, að reima á sig gönguskóna og hjálpa okkur að láta Ljósið skína.
Í viðburðinum okkar á Facebook má finna enn frekari upplýsingar og efni.
Hlökkum til að sjá ykkur.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.