Kæru vinir,
Ljósið fer í jólafrí frá og með 23. desember fram yfir nýja árið. Lokað verður á Þorláksmessu og við opnum aftur á nýju ári föstudaginn 2. janúar.
Við sendum ykkur kærleiksóskir um yndislega aðventu og minnum ykkur á að njóta en ekki þjóta. Við hvetjum ykkur að huga vel að heilsunni á þessum tímum, bæði líkamlegri og andlegri. Í lokin viljum við deila með ykkur hluta úr pisti eftir Hólmfríði Einarsdóttur, iðjuþjálfa í Ljósinu, sem gott er að hafa í huga yfir jólatímann.
Jólavenjur og rútína – Pistill eftir Hólmfríði iðjuþjálfa
Í eðli okkar erum við vanaföst og flestar daglegar athafnir okkar byggja á vana og einhverri rútínu. Ýmsa kosti má finna í vanamynstri okkar og má þar kannski helst nefna að það sparar orku og oft tíma því við þurfum ekki að hugsa eða skipuleggja hvert skref í framkvæmdinni. En hvernig verður vaninn til? Er þetta eitthvað sem okkur var kennt og við valið að halda í eða þróaðist þetta í takt við tíðarandann hverju sinni?
Nú fer að styttast í daga sem oft byggja á miklum vana og hefðum. Í breyttum aðstæðum eins og veikindum þarf reglulega að forgangsraða og endurskoða eigin venjur og rútínu og eru dagarnir í kringum hátíðarnar engin undantekning á því. Nauðsynlegt getur verið að skoða hvort hefðirnar séu innihaldsríkar athafnir sem gott er að halda í eða hvort um sé að ræða gamlan vana sem mögulega þjónar ekki jákvæðum tilgangi lengur. Breytingar þurfa alls ekki að vera af hinu slæma eða varanlegar. Sumar venjur er hægt að hvíla í einhvern tíma eða útfæra á annan hátt en auðvitað eru alltaf einhverjar hefðir sem við viljum alls ekki breyta. Gleymum þó ekki að halda áfram að hlúa vel að okkur með því að lágmarka óþarfa álag og viðhalda góðri rútínu með jafnvægi á milli virkni og hvíldar.
Með kærri jólakveðju,
Starfsfólk Ljóssins
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.






