Hlaupið fyrir Birtu Björk – vinahópur sameinast í Reykjavíkurmaraþoninu

Í ár tekur einstakur hópur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu með fallegan tilgang: Að hlaupa fyrir Birtu Björk, vinkonu þeirra sem hefur staðið frammi fyrir alvarlegum veikindum.

„Við vorum nokkur búin að plana að hlaupa í ár og kom ekkert annað til greina en að hlaupa fyrir hana eftir þær fréttir sem við fengum í nóvember síðastliðnum,“ segir hópurinn. Þau eru nánir vinir sem hafa þekkst síðan í æsku og haldið hópinn saman í gegnum árin.

Hópurinn telur tíu manns sem flest koma frá Borgarnesi. „Við höfum öll alist upp saman og myndað sterkan vinahóp – tengingin okkar við Birtu er djúp og mikilvæg.“

Það var ekki aðeins vinátta sem kveikti þá ákvörðun að hlaupa, heldur líka þakklæti. „Okkur langaði að gefa eitthvað til baka fyrir það sem Ljósið hefur gert fyrir Birtu í hennar ferli. „Við erum öll í sama vinahóp og það er alltaf pláss fyrir fleiri – allir velkomnir að slást í hópinn!“ Með því að hlaupa fyrir hana safna þau áheitum sem renna til Ljóssins.

Undirbúningurinn hefur gengið vel og flestir fylgja æfingaáætlun í Runna sem er smáforrit með hlaupaprógrammi. „Við höfum gaman af því að æfa saman og hlökkum mikið til dagsins sjálfs þar sem markmiðið er einfalt: að njóta og klára þetta saman.“

Viðbrögðin hafa verið afar jákvæð. „Fólk hefur sýnt mikinn stuðning, bæði með fallegum orðum og með því að heita á okkur. Það skiptir miklu máli.“

En af hverju ætti fólk að heita á hópinn? „Vegna þess að Ljósið sinnir

ómetanlegu og óeigingjörnu starfi fyrir fólk sem glímir við krabbamein. Við höfum séð það sjálf í gegnum Birtu okkar og viljum gera okkar til að styðja við það.“

Eftir hlaupið mun hópurinn sjálfsagt fagna saman. „Já, við ætlum að hittast um kvöldið, grilla og síðan skella okkur saman á Menningarnótt – það verður fullkominn endir á dásamlegum degi.“

Ef þú vilt styðja þenna frábæra hóp og leggja málefninu lið, getur þú heitið á þau hér

 

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.