Saga Elínar Ólafar úr Ljósinu

Elín tekur sig glæsilega út með fallegu slæðuna í styrktarverkefni Nettó
Þegar Elín Ólöf greindist með brjóstakrabbamein í nóvember 2024 leit hún á veikindin sem tímabundið stopp. „Ég ætlaði svosem ekki að nýta mér þjónustuna í Ljósinu,“ segir hún heiðarlega. „Ég hélt að þetta yrði lítið mál – bara aðgerð og svo aftur í vinnuna.“
En það fór á annan veg. Það sem virtist fyrst eiga að vera létt ferli varð fljótt krefjandi. Í janúar hóf Elín lyfjameðferð og þegar hún áttaði sig á í hvað stefndi, byrjaði hún að mæta reglulega í Ljósið. Það reyndist gæfuspor.
Samkennd og samverustundir – jafningjastuðningurinn skiptir sköpum
„Það sem kom mér mest á óvart var hversu mikilvægt það er að vera hluti af jafningjahópi. Að hitta aðrar konur á svipuðum aldri sem eru að ganga í gegnum það sama er ómetanlegt. Þar fær maður ekki bara stuðning heldur líka ráð sem maður fengi hvergi annars staðar.“
Elín leggur mikið upp úr vikulegum hádegismat með hópnum og sækir reglulega handverksstundir. „Stundum geri ég ekki neitt með höndunum, ég kem bara til að vera með og spjalla. Þetta eru orðnar vinkonur sem mér þykir vænt um. Það er ótrúlegt hvað samhugurinn í hópnum hefur gert mikið fyrir mig.“
Hreyfing sem hjálpar bæði líkama og huga
Líkamleg endurhæfing skipar einnig stóran sess í bataferli Elínar. Með sérsniðnu æfingaprógrammi frá sjúkraþjálfara í Ljósinu hefur hún haldið hreyfingu sem hluta af daglegri rútínu og það hefur haft umtalsverð áhrif.
„Að halda mér virkri hefur bókstaflega bjargað geðheilsunni. Það að geta komið og hreyft mig í samræmi við hvað aðstæður hverju sinni leyfa hefur skipt mig máli á öllum sviðum.“
Undirbúningur fyrir lífið eftir veikindin
Elín segir að hún finni nú hvað endurhæfingin hefur styrkt hana, ekki aðeins fyrir daginn í dag, heldur framtíðina. „Með þátttöku minni í Ljósinu er ég að undirbúa mig undir að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Ég veit satt að segja ekki hvernig staðan mín væri ef ég hefði ekki nýtt mér þetta.“
Hún bætir við: „Ég skil núna hvers vegna allir voru að benda mér á að leita til Ljóssins strax við greiningu. Þetta er ekki bara meðferðarstaður, þetta er samfélag, stuðningur og styrkur.“

Ljósið lýsir leiðina – og við getum hjálpað því að halda áfram að skína
„Ljósið er staður sem enginn vill þurfa að leita til en þegar maður þarf á því að halda þá er þetta staðurinn sem hjálpar manni í gegnum.“
Elín hvetur fólk til að taka þátt í átaksverkefni Ljóssins og Nettó, þar sem fallegar slæður og taupokar prýddir listaverki eftir Steingrím Gauta eru seldir til styrktar starfseminni. Allur ágóði rennur óskiptur til Ljóssins.
„Undir eðlilegum kringumstæðum væri ég taupokatýpan,“ segir Elín brosandi. „En í augnablikinu er slæðan fín á höfuðið þannig að báðar vörurnar henta mér vel.“

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.



























