Prjónahópur úr Ljósinu hefur síðustu mánuði prjónað peysur á Miu Magic dúkkuna og hafa nú afhent afraksturinn til forsvarsmanna Miu Magic sem munu sjá til þess að peysurnar rati á réttan stað.
Dúkkan er hönnuð fyrir veik börn þar sem hægt er að bæta á dúkkuna því sem er verið að vinna með barninu eins og t.d. æðaleggi, lyfjabrunn, hnapp eða annað. Börn sem eiga við þannig áskoranir geta betur samsvarað sig við dúkkuna. Þátttakendur í verkefninu er hópur sem hefur áhuga á prjónamennsku og fær út úr því ánægju og vellíðan við að búa til eitthvað frá grunni í höndunum. Þau gleyma stað og stund í góðum félagsskap á meðan þau vinna markvisst að einhverju sem fer svo áfram beint út í samfélagið.
Prjónahópurinn hittist í Ljósinu á miðvikudögum á milli 9:00-12:00 og vinnur þá oft að samfélagslegum verkefnum. „Það gefur þeim tilgang að skapa eitthvað og gefa til baka“, segir Louisa Sif Mønster, iðjuþjálfi hjá Ljósinu sem leitt hefur verkefnið. „Það er hluti af þeirra endurhæfingu og hópurinn fyllist stolti að sjá loka niðurstöðuna renna beint til þeirra sem hennar njóta.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.