Það má segja að það hafi verið töfrar í loftinu þegar hópurinn Þrek og tár mætti í kveðjutíma í Þol og Styrk í líkamlegu endurhæfingunni í Ljósinu á dögunum. Þær komu sáu og sigruðu, allar í stíl í sérmerktum bolum og færðu þær þjálfurunum einnig boli til að vera með í stemningunni.
Þetta er einn af mögnuðu hópunum sem myndast í Ljósinu. Allt byrjaði þetta á því að tvær úr hópnum, þær Steinunn og Linda byrjuðu að mæta í Þol og Styrk. Tímarnir eru hressandi og fóru þær að peppa fleiri í kringum sig að mæta með sér. Úr varð hópurinn Þrek og tár, sem er vísun í það þegar þær tóku sérstaklega vel á því, þá breyttist nafnið úr Þol og Styrk í þetta skemmtilega nafn. Þarna myndaðist góður vinskapur og voru þriðjudagar og fimmtudagar orðnir mikilvægustu dagar vikunnar sem varð til þess að þær gerðu allt sem þær gátu til að missa ekki úr tíma.
Nú þegar hafa nokkrar útskrifast úr Ljósinu og eru aðrar að fara að útskrifast, því var ákveðið að sameinast í þennan skemmtilega kveðjutíma og taka sérstaklega vel á því. Skemmtilegum tíma, vinskap og Ljósinu var svo fagnað að lokum með gómsætri og glæsilegri köku sérmerktri hópnum ásamt skemmtilegum setningum úr vegferðinni.
Hópurinn Þrek og tár er bara rétt að byrja, því planið er að hlaupa saman í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst til styrktar Ljósinu.
Algjörlega magnaðar konur, við í Ljósinu erum stolt og þakklát fyrir þennan góða hóp.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.