Kæru vinir
Við viljum deila með ykkur einstökum viðburði sem Ljósið fékk tækifæri til að láta verða að veruleika. Þökk sé Hilton Reykjavík Nordica, Kjarnafæði, Innnes, Garra, Norðanfisk og MS er nú blásið til glæsilegs fjáröflunarkvöldverðar sem fer fram 7. mars næstkomandi klukkan 19:00. Þar munu fyrirtæki og velunnarar koma saman til að njóta kvölds með dýrindis mat, frábærri skemmtidagskrá og um leið styðja við starfsemi Ljóssins.
Við erum sérstaklega þakklát einu ónafngreindu fyrirtæki sem tekur þátt í kvöldinu en vill að auki sýna samfélagslega ábyrgð í verki með því að kaupa nokkur borð á fullu verði. Þetta gerir okkur kleift að bjóða þjónustuþegum Ljóssins sæti á viðráðanlegu verði, eða 10.000 krónur á mann. Innifalið er glæsileg þriggja rétta máltíð og skemmtidagskrá.
Í boði eru 50 miðar og hvetjum við þau sem hafa áhuga á að taka þátt til að skrá sig hér – fyrstur kemur fyrstur fær: https://ljosid.is/vefverslun/fjaroflunarkvoldverdur-midi/
Einnig eigum við 3 fyrirtækjaborð fyrir þau ykkar sem mögulega þekkið til velviljaðra stjórnenda sem gætu viljað taka þátt í þessu einstaka kvöldi með okkur. Seld eru 8-12 manna borð og er fullt verð 27.900 krónur á mann. Þetta er kjörið tækifæri til að gleðja starfsfólk, bjóða viðskiptavinum eða einfaldlega styðja við mikilvægt málefni. Fyrirspurnir um fyrirtækjaborð má senda á solla@ljosid.is.
Allur ágóði rennur óskertur til starfsemi Ljóssins.
Við hlökkum til að njóta þessa kvölds með ykkur og vonumst til að sjá sem flest!
Með hlýjum kveðjum,
Starfsfólk Ljóssins
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.