Ný hugsun í heilbrigðisþjónustu – Ljósið lýsir leiðina

Höfundur: Erna Magnúsdóttir framkvæmdarstýra Ljóssins

Með því að innleiða nýja hugsun í heilbrigðisþjónustu, þar sem andleg og félagsleg heilsa fá jafna athygli og líkamleg heilsa, er hægt að styðja skjólstæðinga betur í þeirra bataferli. Iðjuþjálfun spilar lykilhlutverk í þessari þróun og Ljósið hefur sýnt fram á hversu mikilvæg sú nálgun er fyrir þá sem glíma við afleiðingar krabbameins.

Þegar einstaklingur greinist með krabbamein breytist lífið skyndilega. Upp koma líkamlegar og andlegar áskoranir sem krefjast sértækrar heilbrigðisþjónustu en í  20 ár hefur Ljósið leitt veginn í endurhæfingu fyrir krabbameinsgreindra á Íslandi. Þjónusta Ljóssins byggir á grunni iðjuþjálfunar en stuðst er við þverfaglega nálgun þar sem ólíkar starfsstéttir vinna saman að því að veita þjónustuþegum heilbrigðisþjónustu sem á sér enga aðra hliðstæðu.  Í endurhæfingunni í Ljósinu eru allar stéttir jafn mikilvægar, en iðjuþjálfar hafa oft þurft að útskýra hvernig þeir nýta sérfræðiþekkingu sína til að endurhæfa fólk og hvaða tól þeir nota.

Verkfærakista iðjuþjálfa

Margir gera sér ekki grein fyrir hversu mikil áhrif það hefur að vera kippt út úr daglegu lífi, missa tilgang  eða jafnvel getu til þess að taka þátt í daglegri iðju sem við hin teljum sjálfsagða. Ungur lögfræðingur greinist með krabbamein, getur ekki sótt vinnu og byrjar að einangra  sig, eða fullorðinn bifvélavirki missir tilfinningu í fingurgómum vegna lyfjameðferða og sekkur í mikinn kvíða – sögurnar eru fjölmargar sem við heyrum á hverjum degi en ráðin eru misjöfn. Iðjuþjálfar Ljóssins leitast við að draga úr neikvæðum afleiðingum iðjusviptingar og einangrunar sem geta fylgt krabbameinsmeðferðum. Til þess nota þeir fjölbreyttar aðferðir svo að einstaklingar geti endurheimt færni og fundið jafnvægi í daglegu lífi samhliða og eftir lyfjameðferðir. Slíkar úrlausnir krefjast einnig tíma og því er það mikill lykill að árangri að endurhæfingin sé hnitmiðuð en ekki endilega skammvinn.

Í Ljósinu er iðjuþjálfun í hóp mikilvægur hluti starfsins. Hún felur í sér handverk, fræðslu og jafningjastuðning, þar sem fjölmargir valdeflandi og mikilvægir þættir líkamlegrar og félagslegrar endurhæfingar eru sameinaðir. Gildi handverks og sköpunar er óumdeilt, en rannsóknir sýna að slíkar aðferðir geta dregið úr depurð, kvíða, verkjum og þunglyndi, auk þess að gagnast í áfallavinnu samhliða hefðbundinni samtalsmeðferð.

Endurhæfing krabbameinsgreindra er því ekki aðeins spurning um að endurheimta líkamlega getu – hún snýst líka um að byggja upp sjálfstraust, félagslega virkni og lífsgæði.

Við lítum stolt til baka á síðustu 20 ár og hlökkum til áframhaldandi þróunar á þessu mikilvæga sviði heilbrigðisþjónustu.

Lifi Ljósið!

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.