Söfnuður Bústaðakirkju í samvinnu við Kvenfélag Bústaðasóknar, hefur afhent Ljósinu rausnarlegan styrk að upphæð 500.000 kr. Styrkurinn er afrakstur Bleiks októbers í Bústaðakirkju, þar sem hádegistónleikar voru haldnir alla miðvikudaga og sérstakar listamessur á sunnudögum.
Markmið Bleiks októbers var að vekja athygli á mikilvægri þjónustu Ljóssins við krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra, ásamt því að safna fjármagni til að styðja starfsemina. Gestir tónleikanna og safnaðarmeðlimir tóku virkan þátt með frjálsum framlögum.
Auk þessa ákvað Kvenfélag Bústaðasóknar að leggja sitt af mörkum með sérstökum fjárstyrk sem hluti af þessari upphæð.
„Við erum afar þakklát fyrir stuðninginn og þennan höfðinglega styrk sem mun renna til þess að efla þjónustu okkar við þá sem kljást við krabbamein,“ segir Hólmfríður Einarsdóttir, iðjuþjálfi við móttöku styrksins
Afhending styrksins fór fram 20. desember 2024 í Ljósinu.
Með þessu sýna Bústaðakirkja, Kvenfélag Bústaðasóknar og safnaðarmeðlimir enn á ný hvernig samstaða og kærleikur geta haft raunveruleg áhrif á samfélagið. Fyrir það sendum við þeim okkar bestu þakklætiskveðjur.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.