Sveinn Jónsson kom í hús til okkar á dögunum, nýfloginn heim frá Þýskalandi.
Erindi hans var að færa Ljósinu veglegan styrk sem hann safnaði frá bæði einstaklingum og fyrirtækjum sem hétu á hann er hann gekk yfir 400 kílómetra af Jakobsveginum.
Sveinn gekk af stað 13.apríl síðastliðinn, en hann gekk í minningu eiginkonu sinnar og barnsmóðir sem lést úr krabbameini fyrir rúmum 30 árum. Markmið göngunnar var að varpa ljósi á starfsemina sem hann er sannfærður um að hefði skipt sköpum í sínu ferli, hefði hún verið komin á laggirnar þegar eiginkona hans sem lést um aldur fram einungis 31 árs gömul.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þú gengur Jakobsveginn, er það nokkuð?
Fyrir tveimur árum gekk ég þessa leið og var það mjög heilandi ferð. Ég vissi það strax við heimferð að ég myndi gera þetta aftur. Ég fann síðan þessa miklu löngun til að nota ferðalagið til að vekja athygli á Ljósinu þar sem ég þekki fólk sem hefur nýtt sér þjónustuna og sagt hana ómetanlega í sinni krabbameinsmeðferð. Ljósið var ekki til á þeim tíma sem krabbameinið kom inn í líf okkar hjóna en mikið hefðum við þurft á því að halda.
Frjálsari gagnvart fortíðinni
Ég gekk einn og án þess að hafa neitt í eyrunum. Vildi leyfa hugsunum að koma og fara, sumar staldraði maður við en aðrar þutu inn og út. Ég var ekki með skipulagt hvað ég ætlaði að labba langt né hratt á hverjum degi heldur labbaði ég mishratt eftir dagsforminu. Þegar maður reynir að stjórna ekki neinu, þá losnar um í huganum, hann reikar og ég leyfi honum það. Sumt staldrar maður við en annað flaug í burtu.
Fyrri gangan snérist mikið um að gera upp gamalt sár en seinni gangan var mikið frjálsari gagnvart fortíðinni og þá frekar fókuseruð á gleði og að láta gott af mér leiða. Safna pening fyrir Ljósið. Fann hvað það veitti mér ánægju, fannst svo gott að gera gagn.
Hvernig gekk?
Fyrstu 10 dagana gekk rosalega vel og ég var mjög heppinn með veðrið. Mér leið vel á göngunni og gaman var að rekast á fólk sem var á svipuðu ferðalagi. Á farfuglaheimilum var stundum boðið upp á pílagrímamáltíðir og þar rakst maður oft á aðra göngugarpa og gat deilt sögum. Það eru margir sem labba leiðina í áföngum, sumir á nokkrum árum. Það er ekkert eitt réttara en annað. Eitt strokar ekki annað út.
Fékk ekki tilfinninguna að ég væri að bregðast því ég lagði mig allan fram
Jakobsvegurinn er yfir 900 kílómetra leið en í þetta skiptið komst Svenni ekki alla leið. Hann gekk þó yfir 400km og labbaði að meðaltali 26 kílómetra á dag.
Ég labbaði í 4 daga þar sem mér var illt og það voru um 130 km sem ég labba sárþjáður. Þá fór ég af stað á morgnanna með sviða undir iljunum og svo eftir 300-400metra var það skárra. Tók hvíldardag eftir 4 daga af þessu og þegar ég labbaði aftur daginn eftir gerðu sömu meiðsli vart við sig. Daginn eftir það gekk ég áfram og var þá alveg búinn.
Eftir það fór ég og hitti lækni og tók almennilega hvíld. Ég var mjög svekktur en svo hringdi ég í Sollu hjá Ljósinu sem talaði um þessa vegferð sem maður leggur upp í og svo bara breytast plönin. Þá náði ég hjartatengingunni við Ljósið. Það hvort að ég labba 10 dögum lengur eða ekki, er ekki aðalmálið. Fólk sem leitar til Ljóssins er að díla við svo mikið og langar sjálfu að halda áfram og gera meira en það er ekki alltaf í boði.
Sjúklingar eru að berjast fyrir lífi sínu og aðstandendur eru að berjast fyrir hamingjunni sinni og sálarfrið. Þetta fór bara svona í þetta skiptið.
Heilsan er númer 1, 2 og 3
Staðan er bara þessi, alveg sama hvað manni langar eða vill.
Ef ég get ekki þetta, hvað get ég þá gert? Þetta var það sem ég gat gert á þeim tíma og ég skil sáttur við borð. Ég átti ekkert eftir.
Jafningjastuðningurinn í Ljósinu er svo mikilvægur, líka fyrir aðstandendur
Það þurfa ekki allir að finna upp hjólið fyrir sína krabbameinsmeðferð. Það er einhver annar búinn að fara í gegnum sama ferli og þú og getur stytt þér leiðina í gegnum þessa þrautagöngu. Þegar Sigrún mín fór í brjóstnám þá komu til hennar konur sem höfðu farið í gegnum sama ferli og veittu henni svo dýrmætan jafningjastuðning. Alveg ómetanlegt
Krabbamein er fjölskyldusjúkdómur, leggst ekki bara á sjúklinginn heldur alla fjölskyldumeðlimi.
Þú þarft ekki að taka þetta einn á kassann. Getur fengið upplýsingar sem stytta þér leið.
Hefur ekkert með það að gera hvort þú ert góð eða slæm manneskja eða hvort þú átt þetta skilið eða ekki.
Finna gleðina í litlu hlutunum
Lífið er ekki sanngjarnt og það kemur fyrir okkur öll. Getur verið ég, hún eða hver sem er. Af hverju þessi en ekki hinn.
Við Sigrún lærðum að gleðjast yfir smásigrum, keyptum okkur lóð og fórum að byggja. Héldum áfram að skipuleggja framtíðina þrátt fyrir sjúkdóminn. Það skiptir máli hvort við sjáum fyrir okkur framtíð eða ekki.
Hugsa að ef ég get ekki gert þetta hérna, get ég þá gert eitthvað annað?
Það er nefninlega sama hvað við ákveðum í lífinu, það er ekkert víst að það raungerist. Ég er þakklátur fyrir það sem maður hefur þó það komi ekki í staðinn fyrir það sem maður missti.
Til að heita á Svein og styrkja Ljósið má leggja inn á reikning Ljóssins 0101-26-777118, kennitala 590406-0740 og merkja færsluna Jakobsvegur. Sveinn stendur straum af öllum kostnaði við gönguna og allir styrkir renna því beint til Ljóssins.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.