Árlegur Ljósafoss niður hlíðar Esjunnar á vegum Ljóssins endurhæfingarmiðstöðvar fyrir krabbameinsgreinda mun eiga sér stað laugardaginn 11. nóvember næstkomandi.
Þar mun hópur göngufólks hittast við grunnbúðir Ljóssins við Esjurætur upp úr klukkan 15:30. Lagt verður af stað upp að Steini klukkan 16:00 og í kjölfarið gengið niður með höfuðljós tendruð og myndaður fallegur Ljósafoss í þann mund sem myrkrið skellur á. Björgunarsveitin Kjölur verður á staðnum. Hver og einn getur gengið þá vegalengd sem hentar, og beðið eftir ljósafossinum á leið niður.
Með þessum viðburði vekjum við athygli á mikilvægi Ljóssins sem er endurhæfingar og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra. Þorsteinn Jakobsson fjallagarpur leiðir gönguna eins og undanfarin ár.
Við minnum á góðan hlífðarfatnað og auðvitað höfuðljósin, og hvetjum gönguhópa og fjallagarpa að reima á sig gönguskóna og hjálpa okkur að láta Ljósið skína.
Í ár mun Sjóvá veita Ljósinu stuðning í framkvæmd viðburðarins en einnig heita þeir 1000 krónur á hvern þann sem tekur þátt í viðburðinum í gegnum Strava.
„Með því að taka þátt í þessum fallega viðburði minnir Sjóvá á birtuna og vonina, en vonin er einmitt svo gríðarlega mikilvæg í kjölfar krabbameinsgreiningar. Við í Sjóvá erum til staðar fyrir þá viðskiptavini okkar sem greinast með krabbamein og vitum að við tekur erfiður tími. En það er jafnframt mikilvægt að muna að það er líf eftir greiningu og að Ljósið vinnur kraftaverk á hverjum degi fyrir þau sem eru í endurhæfingu og bata. Með því að taka þátt í Ljósafossinum minnum við á það.“ segir Jóhann Þórsson markaðsstjóri Sjóvá.
Erna Magnúsdóttir forstöðukona Ljóssins: „Nú eru komin 14 ár frá fyrsta Ljósafossinum okkar niður Esjuhlíðar. Við erum virkilega stolt af því að í ár ætlar Sjóvá að styrkja viðburðinn um 1000 krónur fyrir hvern þátttakanda og hjálpa okkur að vekja athygli á mikilvægi Ljóssins. Ljósafossinn okkar er táknrænn því þar er ljósið borið í gegnum svartasta myrkrið af þeim sem hafa burði til – Rétt eins og Ljósið gerir á hverjum degi fyrir þá sem til okkar sækja þjónustu. Ég vona innilega að sem flestir göngugarpar sjái sér fært að taka þátt í þessum mikilvæga og táknræna viðburði okkar en skrái sig jafnframt í viðburðinn á Strava og fái þannig áheit frá Sjóvá“
Í hverjum mánuði nýta sér yfir 600 manns á mánuði þjónustu Ljóssins. Þar starfar fjölbreyttur hópur fagaðila sem leggur grunn að andlegu, líkamlegu og félagslegu þreki þeirra sem greinast með krabbamein.
Nánari upplýsingar má finna á á Facebook viðburði göngunnar hér.
Frekari upplýsingar má einnig finna á heimasíðu Ljóssins www.ljosid.is sem og hjá Ernu í síma 6956636 eða Heiðu í síma 616-1422
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.