Það var glatt á hjalla á Grandhóteli fyrr í vikunni þegar Ljósið endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og Alzheimersamtökin tóku við veglegum styrkjum frá Hárgreiðslumeistarafélagi Íslands.
Fyrr í mánuðinum var sú ákvörðun tekin að slíta skyldi félaginu og að fjármunir úr sjóði félagsins myndu renna til mikilvægra málefna. Þótti við hæfi að fyrir valinu yrðu félög sem leidd eru af konum en Hárgreiðslumeistarafélag Íslands, sem stofnað var 1931, var eina félag löggiltra iðngreina sem einungis var skipað konum í upphafi.
Lovísa Jónsdóttir, formaður Hárgreiðslumeistarafélags Íslands og Þórdís Helgadóttir, hárgreiðslumeistari, afhentu styrkinn. Sólveig Kolbrún Pálsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri, veitti styrknum viðtöku fyrir hönd Ljóssins og Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, fyrir hönd Alzheimersamtakanna.
Ljósið sendir sínar bestu þakkir til allra félagsmanna fyrrum Hárgreiðslumeistarafélags Íslands.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.