Við tókum hús á myndlistakonunni Ósk Laufdal á dögunum á einu elsta kaffihúsi borgarinnar, Café Milano.
Ósk hefur alla tíð haft áhuga á myndlist og hverskyns handverki, en áður en myndlistin fangaði hana þá hannaði hún og framleiddi minjagripi og seldi í helstu minjagripaverslunum landsins. Það var árið 2015 sem hún byrjaði að mála og tók þá meðvitaða ákvörðun eins og hún sagði við sjálfa sig svo skemmtilega „Nú ætla ég að verða listamaður“.
Hún frétti af námskeiði hjá Þuríði Sigurðardóttir myndlistakonu, en það var mjög setið um námskeiðin og bið um að komast að. Viti menn, þegar Ósk hringir til að athuga með námskeið, þá var akkúrat einn að detta út af námskeiðinu og fékk hún því strax pláss. Það mætti því segja að örlögin hafi gripið í taumana þarna og beint henni á rétta braut. Þarna lærði hún grunninn í myndlist, litablöndun og þess háttar. Myndefni hennar er af ýmsum toga, og sækir hún innblástur frá gömlu meisturunum Monet, Van Gogh, Da Vinci, Kjarval og fleirum.
Það er Ósk hjartans mál að mála til góðs og styrkja gott málefni, en nú er Ljósið henni ofarlega í huga þar sem nákominn aðili hefur nýtt sér endurhæfingu Ljóssins að undanförnu. Hún málar af hugsjón og með hjartanu og segist ekki hafa gaman af listinni nema geta gefið af sér, en það var ákveðið alveg frá því hún byrjaði að mála. Ósk hefur verið dugleg að halda sýningar og styrkja góð málefni, á tímabili voru það ísbirnir sem nutu góðs af, einstök börn og fleiri góð málefni.
„Ég hef ekki gaman af því að mála til að græða, ég hef gaman af því að gefa líka“
Nú stendur yfir sýning á verkum Óskar á Café Milano, þar sýnir hún fjölbreytt verk með blandaðri tækni. Eitt verk sýningarinnar er tileinkað Ljósinu. Verkið er sannarlega spennandi, mynd af fallegum blómum sem hún segir tákna sólina eða Ljósið. Verkið er af stærðinni 80 x 100 cm málað á sand, sem er sérstök aðferð þar sem ramminn er sandaður áður en málverkið sjálft er málað. Aðferðin veitir grófa áferð og virkar myndin þrívíðari fyrir vikið. Þessi aðferð er ekki ný af nálinni, en gömlu meistararnir nýttu bæði sand og grjót í sín verk hér áður fyrr.
Eru áhugasamir hvattir til að bjóða í verkið, lágmarksboð er 50.000 krónur. Til að bjóða í verkið skal hafa samband Þórarinn Finnbogason eiganda og vert á Café Milano, hann heldur utan um uppboðið.
Við hvetjum alla til að heimsækja Café Milano, fá sér góðan kaffibolla, skoða myndlistina, bjóða í myndina ef hún heillar og eiga notalega stund í þessu spennandi umhverfi.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.