Í dag, 4. febrúar, er Alþjóðlegur dagur gegn krabbameini. Til hans var stofnað í framhaldi af Heimsráðstefnu um baráttu gegn krabbameinum í París 4. febrúar árið 2000. Markmiðið með þessum degi er að vekja athygli og með því koma í veg fyrir milljónir ótímabærra dauðsfalla vegna sjúkdómsins, uppfræða og hvetja stjórnvöld og einstaklinga um heim allan til að skera upp herör gegn honum.
Árinu í ár er sérstaklega ætlað að varpa ljósi á mátt þekkingar og gera visst mat á stöðu mála í dag, en vitað er að:
- Þeir sem leita hjálpar við krabbameini mæta oft á tíðum hindrunum í ferli sínu.
- Þættir eins og tekjur, menntun, staðsetning og mismunun á grundvelli þjóðernis, kyns, kynhneigðar, aldurs, fötlunar og lífsstíls eru aðeins nokkrir af þeim þáttum sem geta haft neikvæð áhrif á þjónustu krabbameinsgreindra.
- Mismunun í þjónustu hefur áhrif á alla, líka þig og ástvini þína.
- Þessar hindranir eru ekki meitlaðar í stein. Þeim er hægt að breyta.
Í Ljósinu höfum við ávallt lagt áherslu á að bæta aðgengi þeirra sem greinast með krabbamein að faglegri endurhæfingu. Þjónustan er til að mynda næstum öll endurgjaldslaus og sniðin að fólki á ólíkum aldri og aldursskeiðum sem og kynjum. Lögð hefur verið sérstök áhersla á að þeir sem búsettir eru á landsbyggðinni og greinast með krabbamein hafi aðgengi að faglegri endurhæfingu í Ljósinu, sem og þeir sem ekki geta sótt til okkar þjónustu að öðrum ástæðum.
Við höldum þó áfram að stíga skrefin í átt að jöfnuði á árinu, en meðal þeirra verkefna sem unnið er að eru kynningarefni á ensku og pólsku, vefsíður á ensku og pólsku, bætt aðgengi fyrir fatlaða, endurskoðun kynningarefnis og þjónustuframboðs með tilliti til kynja.
Starfsfólk Ljóssins heldur áfram að hlusta á sjónarhorn fólksins sem lifir með krabbamein og samfélag þeirra. Við horfum til framtíðar — þar sem allt fólk lifir heilbrigðara lífi og hefur betri aðgang að heilbrigðis- og krabbameinsþjónustu, sama hvar það fæðist, vex, eldist, vinnur og býr.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.