„Við erum ekki að fara að losna við hvor aðra þó við séum orðnar nokkurn veginn heilbrigðar“ heyrist hátt og snjallt í handverkssal Ljóssins á vindasömum miðvikudegi í ágúst. Þangað er kominn vinkonuhópurinn „Lubbarnir“ sem samanstendur af níu galvöskum konum sem kynntust á námskeiði fyrir nýgreindar konur í Ljósinu haustið 2020.
Frá því þær kynntust hafa þær verið mjög samstilltar og fylgst að í gegnum mismunandi dagskrárliði endurhæfingunnar í Ljósinu. Því til viðbótar hafa þær reynt að gera sem mest saman utan veggja Ljóssins eins og að hendast í fjallgöngur, golf, og jafnvel tekið að sér módelstörf.
Í dag eru þær þó komnar í Ljósið til að segja frá vinskapnum, endurhæfingunni og framlagi þeirra til Ljóssins, en ein úr hópnum fagnaði fimmtudagsafmæli sínu í mánuðinum og færðu þær Ljósinu rausnarlega gjöf að því tilefni.
Það besta við að koma í Ljósið er fólkið
Vinskapurinn skín í gegn þegar hópurinn hlær og rifjar upp skemmtileg augnablik sem þær hafa átt saman. Þegar þær eru spurðar hvað standi upp úr þegar þær horfa til baka annað en vinskapurinn nefna þær starfsfólkið sem haldi svo þétt utan um þjónustuþegana alla.
„Og bara fólkið einhvern veginn allt. Það er bara enginn með nefið upp í loftið og allir svo friendly. Við vitum öll hvað hver og einn er að ganga í gegnum og maður þarf ekki að segja neitt. Það er svo gott. Það er ekkert alltaf verið að tala um krabbamein hérna inni, eiginlega þvert á móti.“ segir Ásta Guðríður Guðmundsdóttir.
Það er þó ekki bara fólkið sem stendur upp úr heldur einnig að hafa fengið svigrúm til að setja sjálfa sig í forgang; „Ég horfði hérna inn þegar ég kom á kynningarfund og ég sagðist ekki ætla þangað, að verða eins og fólkið sem var í öllu handverkinu. Og nú ári síðar er ég í öllu og sit ég og horfi á fólk koma á kynningarfundina og ég er þarna, sitjandi á handverksnámskeiði. Þetta hefur gefið mér svo mikið, ég hef eiginlega fundið mig! Ég er þjónn að upplagi og hef alltaf verið að þjóna öllum alltaf, en í ferlinu hefur kviknað á einhverri peru að ég þarf líka að hugsa um mig.“ segir Guðrún Elfa Hjörleifsdóttir eða Elfa eins og við þekkjum hana.
Þröskuldur sem maður þarf að yfirstíga sjálfur
„Lubbarnir“ segja leiðir þeirra í Ljósið hafa verið mismunandi og eru flestar sammála um að fyrstu skrefin inn í Ljósið hafi verið erfið því með þeim fylgi ákveðin viðurkenning á veikindunum.
„Ég var ekki viss um að ég ætti að fara þar sem þarna væri bara gamalt fólk en var sannfærð af frænku minni sem greindist á svipuðum tíma og ég um að prufa að sækja kynningarfund. Og ég gaf þessu séns.“ segir Sigurbjörg Hulda Guðjónsdóttir okkur um hvernig það kom til að hún skráði sig í endurhæfinguna.
„Það breytist allt þegar maður stígur hérna yfir þröskuldinn og í raun hefur endurhæfingin þýtt allt fyrir okkur. Við vorum í miðju lockdowni í coviddæminu en ég held að maður hefði bara einangrast miklu meira ef við hefðum ekki haft þann stuðning sem við fengum.“ bætir hún við.
María Ósk Guðbjartsdóttir, eða Mía eins og hún er alltaf kölluð, vissi af endurhæfingunni þar sem tengdamamma hennar hafði sótt þjónustu í Ljósið fyrir 10 árum. Hún orkaði þó ekki að koma fyrr en liðið var á meðferðir og heilsan hennar orðin aðeins betri. „Ég missti svo af tveimur fyrstu tímunum í Grunnfræðslunni og lét mig svo hafa það komast í þriðja tímann og sé ekki eftir því“ segir hún.
Upplifun Elfu var þó önnur en hún vissi strax að hún ætlaði í Ljósið og mætti sama dag og hún greindist. „Mér fannst þetta ekkert mál en vissi samt ekki hvað þetta myndi gefa mér mikið.“
Hópurinn hefur því farið ólíkar leiðir og með ólíkar tilfinningar í þjónustu Ljóssins.
Krabbamein í Covid
Hópurinn myndaðist sem fyrr segir í byrjun september 2020 þegar Covid tilfellum var farið að fjölga að nýju og þjóðin stefndi inn í þriðju bylgju faraldurs. Námskeiðið sem þær sóttu og ætlað er að veita þeim sem greinast grunnfræðslu í upphafi endurhæfingar byrjaði á Langholtsveginum en færðist á Zoom eftir nokkra tíma.
Þær létu það ekki aftra sér frá því að að styrkja tengslin „Þegar við vorum búnar á Zoom héldum við áfram að hittast á Zoom bara við hópurinn og bjuggum okkur til Facebook hóp sem við deilum því sem við gerum saman og pössum upp á hverja aðra“ segir Ásta okkur.
Það er greinilegt að það hefur verið áskorun að halda virkni í gegnum einangrunina sem Covid hefur orsakað en í gegnum spjallið nefna stöllurnar að Ljósið heima, sérstakt samfélag fyrir þjónustuþega Ljóssins á Facebook, hafi nýst einhverjum þeirra vel.
Þær hlæja þó að því að grímurnar hafi alls ekki ekki verið að auðvelda þeim lífið. „Maður situr kannski í stólunum niður á spítala og sér bara skalla, augabrúnir og maska!“ segir Ásta okkur „Og svo þarf maður að spyrja fólk hvort þetta sé ekki örugglega sú eða sá sem maður heldur að þetta sé. Hvort maður hafi bara hist í stólnum á spítalanum eða líka í Ljósinu. Þetta er bara sprenghlægilegt.“ heldur hún áfram.
Húmorinn er svo sannarlega við völd í hópnum.
Handverksuppboð, maraþonhlaup og afmælisstyrkur til Ljóssins
Mikill kraftur fylgir hópnum sem ætlar ekki að láta sitt eftir liggja í stuðningi við Ljósið og leitar allra leiða til þess að láta gott af sér leiða. Til að mynda færði Ásta Ljósinu 16.000 krónur sem söfnuðust á uppboði áþegar hún bauð upp fallegan leirmun sem hún gerði á handverksnámskeiði í Ljósinu „Ég ákvað að athuga hvort það væri ekki einhver sem vildi bjóða í einn af trúðunum mínum og færði Ljósinu 16.000 krónur“ segir hún brosandi.
Því til viðbótar ætlar hluti hópsins að hlaupa sína leið í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir hönd Ljóssins og fá sitt fólk til að heita á sig.
Sigurbjörg hélt nýlega upp á fimmtugsafmælið sitt og hvatti alla gesti til að heita á sig í stað þess að gefa sér gjöf. „Ég er komin með svo mikið að styrkjum að ég get alls ekki hætt við. Ég var búin að segjast ætla að fara tvisvar sinnum 10 kílómetra ef ég myndi ná 200.000 krónur í styrk þannig ég ætla að hlaupa tvisvar sinnum“ segir Sigurbjörg hlæjandi.
Í tilefni afmælisins ákvað hópurinn að gefa Ljósinu heilar 80 þúsund krónur í nafni Sigurbjargar. Aðspurðar um hvernig það kom til upplýsa þær að í raun hafi þær viljað heita á Sigurbjörgu en þar sem þær allar eru að hlaupa og innbyrðis sé svo mikil keppni í áheitasöfnuninni að þær hafi nú alls ekki viljað gefa Sigurbjörgu meira forskot. Því hafi þær ákveðið að peningurinn færi bara beint til Ljóssins.
Við þökkum Lubbunum fyrir frábæra heimsókn og spjall, og fyrir þessa rausnarlegu gjöf um leið og við óskum þeim velfarnaðar í öllu því sem þær taka sér fyrir hendur.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.