Gerir alla daga bjartari að koma í Ljósið

Nanna er sannarlega þakklát starfsfólki Ljóssins / Mynd: Ljósið

„Ljósið er ótrúlegur staður og það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hvað þar er unnið frábært starf af yndislegu fólki sem gefur af sér endalaust alla daga. Krabbameinsferlið mitt hefur verið mjög krefjandi  en í miðri lyfjameðferð þá deyr eiginmaður minn mjög skyndilega úr krabbameini sem við vissum ekki að hann væri með. Starfsfólk Ljóssins stóð þétt við bakið á mér og leyfði mér að koma eins oft ég þurfti.

Þjónustan sem Ljósið bíður upp á veitti mér ómetanlegan styrk og stuðning. Það hefur hjálpað mér mikið í minni endurhæfingu að nýta það sem þar er í boði eins og hreyfing í tækjasal, jóga og allskyns námskeið. Það ásamt því að fara daglega í göngutúr hefur tvímælalaust hjálpað bataferlinu“ segir Nanna María Guðmundsdóttir sem hefur sótt Ljósið síðan sumarið 2020 þegar hún greindist með brjóstakrabbamein.

 

Góð tenging við húsnæði Ljóssins

Nanna í mynd á upptökudegi / Mynd: Ljósið

„Mér leið strax vel þegar ég kom í húsnæði Ljóssins en minn fyrsti vinnudagur á ævinni 16 ára gömul var í Landsbankanum þar sem Ljósið er nú til húsa,“ segir Nanna.

„Ég þekkti til starfsemi Ljóssins og leitaði strax til þeirra um leið og ég greinist. Eftir það fór ég á námskeið fyrir nýgreinda og hitti iðjuþjálfa sem setti upp áætlun um framhaldið. Ég tók strax ákvörðun um að þiggja allt sem í boði væri á meðan á meðferð og endurhæfingu stæði og vera opin fyrir öllu. Það er ómetanlegt að í Ljósinu koma saman einstaklingar á mismunandi stað í sínum veikindum og bata. Þar hittir maður jafningja sem er svo gott fyrir hjartað og sálina.

Auk þess að geta rætt um daginn og veginn er líka gott að ræða um krabbameinið og meðferðina. Það er ómetanlegt fyrir mann að læra af öðrum, heyra reynslu annarra varðandi sjúkdóminn og endurhæfinguna frá þeim sem hafa áður farið í gegnum það sama. Á þeim dögum sem mér leið hvað verst þá kom ég í Ljósið til að fara í jóga og leikfimi. Það kom mér oft sannarlega í gegnum þá daga,“ segir Nanna.

Kraftaverkafólk í Ljósinu

Nanna segist bera endalaust þakklæti til Ljóssins og hún sé oft með í huga hvað hún gæti gert fyrir starfsfólkið sem sé ótrúlega natið, þolinmótt og jákvætt í alla staði.

Nanna kann vel við sig í húsnæði Ljóssins en þar vann hún sína fyrstu vinnu í Landsbankanum / Mynd: Ljósið

„Það er búið að gera svo mikið fyrir mig í Ljósinu að ég hefði aldrei sagt nei við því að taka þátt í verkefni eins og þessari herferð að fjölga Ljósavinum og vekja athygli á þessu frábæra félagi. Að taka þátt í þessu verkefni reyndist mér erfitt því ég er enn þá á mjög viðkvæmu stigi. Ég hélt kannski að ég væri bara að fara að sleikja frímerki eða eitthvað álíka,“ segir Nanna og hlær.

Nanna segir að sér finnist herferðin sem nú er í gangi koma mjög vel út og verði vonandi til þess að fjölga Ljósavinum.

„Við sem tókum þátt tölum öll greinilega beint frá hjartanu og erum einlæg. Eftir að herferðin fór í loftið hafa mjög margir haft samband við mig og lýst ánægju sinni með Ljósið og starfsemi þess og mér finnst dásamlegt að taka þátt í því að fjölga Ljósavinum. Mér finnst algjört kraftaverkafólk sem vinnur hérna en ég hef sjálf rekið fyrirtæki og skil ekki hvernig þau fara að þessu,“ segir Nanna.

 

Fjölskylda og vinir ómetanlegur stuðningur

Smelltu á myndina til að sjá Nönnu í myndbandi Ljósavinaherferðarinnar.

Nanna á stóra og góða fjölskyldu og hafa dætur hennar, systkini og fjölskyldur þeirra staðið þétt við bakið á henni. Þau reyndust henni ómetanleg í veikindunum og erfiðum veikindum eiginmanns hennar  sem lést síðastliðið haust.

Nokkrir af vinum Nönnu hafa farið í gegnum svipuð veikindi og hún. Hún segir hafa verið gott að geta leitað til þeirra og að geta rætt á persónulegum nótum um ferlið og þeirra reynslu.

„Það að fá krabbamein setur lífið gjörsamlega á hvolf bæði fyrir einstaklinginn og fjölskylduna en ég hafði oft sagt að í minni fjölskyldu fengjum við ekki krabbamein heldur fáum við aðra sjúkdóma eins og Alzheimer, Parkinson, gigt og ónýta liði. Ég var því ofboðslega hissa þegar ég greindist með krabbamein og hvað þá við bæði hjónin. Í dag lítur allt vel út hjá mér og ég held áfram minni endurhæfingu í Ljósinu. Það gerir alla daga bjartari og betri að koma í Ljósið og maður fer heim eins og ný manneskja,“ segir Nanna að lokum.

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.