Eftir Elinborgu Hákonardóttur umsjónamann handverks
Hvað er flæði?
Flæði er er ástand sem við getum komist í þegar við gerum eitthvað sem veitir okkur ánægju, eitthvað sem ekki er of auðvelt en heldur ekki of krefjandi. Þegar ástand flæðis er náð er talað um að tilfinning fyrir eigin sjálfi og tíma hverfi og eftir situr tilfinning mikillar vellíðunar eða jafnvel „alsælu“. Þessi tilfinning vellíðunar er auðvitað eftirsóknarverð en ef maður hefur upplifað flæði einu sinni þá er óhætt að segja að mann langi til þess að ná því aftur.
Þetta eftirsóknarverða hugarástand getur átt sér stað við ýmsar aðstæður hjá fólki, þegar þú ert úti að hlaupa, einbeittur að því sem þú ert að gera, andadrættinum og hreyfingunni. Hjá öðrum virkjast flæði við það að mála mynd eða teikna, smíða eða prjóna. Stundirnar sem fólk kemst í ástand þar sem það upplifir flæði eiga það þó flestar sammerkt að þær eiga sér stað í virkni, þegar þú ert að gera eitthvað sem veitir þér ánægju en ekki til dæmis við það að sitja og horfa á sjónvarpið.
Hvað veitir flæði þér?
Flæði hefur ýmsa kosti umfram það að auka ánægjuna við að vinna verkin. Aukin geta til að stjórna tilfinningum, hamingja og einnig meiri sköpunargleði eru meðal kosta flæðis. Þegar hvatinn til að njóta þess sem þú gerir kemur að innan, að gera eitthvað til þess eins að fyllast ánægju, eru líkur á að hvatinn verði meiri til að halda áfram en einnig verður auðveldara að viðhalda honum en þegar hann kemur að utan.
Þar sem flæði er jákvæð upplifun sem krefst ákveðinnar færni og áskorunnar þá auðvitað eykst einnig geta þín á því sviði. Þú þarft því að leita í meira krefjandi verkefni til þess að komast í og viðhalda flæði.
„Bestu augnablikin í lífi okkar eru ekki þau óvirku þar sem við tökum einungis við og slökum á. Bestu augnablikin eiga sér yfirleitt stað þegar við einsetjum okkur líkamlega eða huglægt til að afreka eitthvað erfitt sem er einhvers virði“
Csikszentmihalyi , 1990.
Hvernig kemst þú í flæði?
Það er misjafnt eftir einstaklingum hversu auðvelt það getur reynst okkur að komast í flæði. Eins og með svo margt annað er það auðvitað þjálfunin og endurtekningin sem hjálpar. Þeim mun oftar sem þú gerir það, því auðveldara verður það. Til að byrja með eru nokkrir hlutir sem gott er að hafa í huga til að létta þér leiðina.
5 atriði til að hafa í huga sem auðvelda þér að komast í flæði
- Færni þín þarf að hæfa verkefninu
- Að reyna á eigin færni getur leitt til flæðis
- Vertu með skýr markmið
- Forðastu truflun
- Einbeittu þér að verkinu sjálfu en ekki að ljúka því
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.