Sem forstöðukona í Ljósinu endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir krabbameinsgreinda verð ég á hverjum degi vitni að því hvað framlag starfsfólks miðstöðvarinnar skiptir miklu máli í andlegri og líkamlegri heilsu okkar þjónustuþega. Það eru forréttindi að starfa með slíkum hópi fagfólks og mig langar til að nota daginn í dag til að senda þeim öllum hrós og hvatningu. Deila smá G-vítamíni eins og flottu vinir okkar hjá Geðhjálp minna okkur á þessa dagana.
Ljósið er orðinn stór vinnustaður. Miðstöðin sem byrjaði með einum starfsmanni fyrir rúmum 15 árum státar nú af yfir 30 manna þverfaglegu teymi sem starfar saman sem öflug liðsheild. Starfsfólkið er sérhæft í að mæta fólki þar sem það er statt í lífinu í sínu veikindaferli. Það tekur á móti einstaklingum sem eru oft á tíðum á erfiðum stað þar sem tilveran er á hvolfi. Allt í einu er ekkert í dag eins og það var í gær. Hvernig verður þetta allt saman? Get ég hugsað um börnin mín? Heimilið? Hvað með vinnuna? Tómstundirnar? Vinina? Af hverju þurfti þetta að koma fyrir mig? Þetta eru dæmi um spurningar sem starfsfólkið okkar fær oft í viku. Þetta eru ekki bara nokkrir einstaklingar heldur yfir 500 manns á mánuði sem sækir endurhæfingu- og stuðning til miðstöðvarinnar.
Kærleikur, fagmennska og natni
Það getur tekið á að sitja hinum megin við borðið og vera sá sem hughreystir, styrkir og fær fólk til að huga að bjartari tímum. Það sem einkennir einstaklinga sem vinna slík störf er umhyggja fyrir þeim sem á þurfa að halda og trúin á að framlagið verði til þess að bæta heilsu og líðan.
Við erum heppin að hafa í Ljósinu stóran hóp af vel menntuðu og reynslumiklu fagfólki á sviði endurhæfingar krabbameinsgreindra. Fagfólk sem lætur sér annt um að fylgjast með öllum þeim nýjungum sem verða á sviði endurhæfingar, hvort sem um er að ræða líkamlega getu eða andlega og félagslega þætti.
Hrósum meira
Með þessum pisti langar mig að ekki einungis að þakka starfsfólki Ljóssins heldur líka öllum þeim sem vinna að endurhæfingarmálum og stuðningi við krabbameinsgreinda á Íslandi. Takk fyrir að vinna að því að bæta heilsu og efla lífsgæði þessa hóps með kærleik, natni og fagmennsku. Íslenskt samfélag er heppið að eiga flottan hóp fagfólks sem lýsir upp myrkrið þegar það verður hvað mest.
Með gleði, grósku, fagmennsku og áræðni höldum við saman inn í framtíðina.
Erna Magnúsdóttir
Forstöðukona Ljóssins
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.