Eftir Guðrúnu Friðriksdóttur, iðjuþjálfa

Guðrún Friðriksdóttir, iðjuþjálfi í Ljósinu

Christine Miserandino er með sjúkdóm sem kallast rauðir úlfar. Veikindin hafa haft umtalsverð áhrif á hennar daglega líf og hún hefur þurft að aðlaga verkefni sín breytilegri líðan og orku.

Kvöld eitt var hún að útskýra fyrir bestu vinkonu sinni hvernig það væri að vera veik, hvernig það raunverulega væri að finna fyrir verkjum, vera þreytt og takast líka á við daglegt líf. Hvernig það gæti staðist að það sæist ekkert á henni að hún væri veik en samt gæti hún ekki gert allt sem hana langaði til. Hana langaði til að útskýra hvernig henni raunverulega leið og þetta kvöld fæddist Skeiðkenningin.

Allt kostar skeið

Kenningin um skeiðarnar hefur ekkert með raunverulegar skeiðar að gera, en það er auðvelt að sjá þær fyrir sér. Allt sem við gerum á hverjum degi kostar skeið. Flestir þurfa aldrei að hugsa um skeiðarnar sínar, sérstaklega ungt fólk, heldur gera allt sem þeim dettur í hug og langar til.

Fólk ræður almennt sínum skeiðum sjálft, getur mætt í vinnuna, hitt vini, farið í ræktina, eldað mat, spilað tölvuleiki, farið í gönguferðir og allt annað sem þeim dettur í hug. Flestir þurfa ekkert að hugsa um að eiga ekki nægilega margar skeiðar til að ljúka deginum og öllu sem í honum felst.

Skeiðarnar og endurhæfingin

Þeir sem eru í endurhæfingu ráða ekki hvað þeir fá margar skeiðar. Að morgni dags eru þeim skammtaðar skeiðar og það koma ekki fleiri. Sá sem er í endurhæfingu verður því að ákveða hvað hann vill gera við skeiðarnar sínar. Það er ekki hægt að fá fleiri skeiðar þann daginn og ef fólk notar fleiri skeiðar en þeir eiga taka þau skeiðar af morgundeginum.

Þannig að ef fólk notar of margar skeiðar einn daginn verða færri skeiðar daginn eftir. Það er ekki hægt að hvíla í sig skeiðar en það er hægt að hvíla sig til að koma í veg fyrir að nota skeiðar. Ef fólk er að hvíla sig er það ekki að taka úr vélinni eða brjóta saman þvott eða spjalla í síma eða annað sem kostar skeiðar.

Mikilvægi meðvitundar og athygli

Meðvitund um það í hvað skeiðarnar fara er nauðsynleg. Að ákveða hvaða föt eigi að fara í áður en farið er að skoða í skápana sparar skeiðar, að sitja við að klæða sig og bursta tennurnar sparar skeiðar. Að hagræða í eldhúsinu, fækka skrefum og handtökum sparar sömuleiðis skeiðar. Þá skiptir líka miklu máli að skoða dagleg verk og velta fyrir sér hver þeirra eru nauðsynleg? Hver þeirra skipta máli og hver mega bíða?

Þegar fólk er vant að „drífa í“ verkefnum getur verið erfitt að sjá hvernig hægt er að einfalda þau og jafnvel enn verra að sætta sig við að geta ekki gert allt. Þegar fólk getur ekki gert allt skiptir það öllu máli að gera það sem skiptir máli.

Það getur verið flókið að finna út úr því að skipta verkefnum í viðráðanlega bita en það er líka flókið að finna út úr því hvað þú hefur úr mörgum skeiðum að moða á hverjum degi. Hvað getur þú gert mikið áður en þú ert búin að gera of mikið? Eina leiðin til að komast að því er að prufa sig áfram, fylgjast með og gera allt sem við gerum meðvitað og af athygli.

Hvað vilt þú gera? Í hvað viltu nota skeiðarnar þínar?

https://butyoudontlooksick.com/articles/written-by-christine/the-spoon-theory/

 

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.