Hin daglegu akkeri

eftir Guðrúnu Friðriksdóttur

Guðrún Friðriksdóttir, iðjuþjálfi

Daglega notum við einhvers konar akkeri sem skilgreina tíma okkar, deila honum upp og skammta okkur hann. Fólkið í kringum okkur, aðstæður og okkar eigin ákvarðanir verða að þessum akkerum og halda okkur stöðugum í hinu daglega lífi: Við vitum að vekjaraklukkan hringir klukkan sjö, að við þurfum að mæta í vinnuna klukkan átta og fara í búðina klukkan fimm eftir að hafa sótt krakkana á æfingu.

Yfirleitt eru þessi akkeri sköpuð af okkur sjálfum en stundum tökum við að okkur akkeri frá öðrum í lengri eða skemmri tíma, til dæmis að passa hund eða vökva blóm fyrir nágranna tvisvar í viku. Við höfum eitthvað um akkerin að segja – samþykkjum verkefnin.

 

Þegar akkeri breytast

Sjálfsmynd okkar sem fullorðnir einstaklingar byggist að miklu leiti á því að við ráðum okkur og okkar tíma sjálf. Þegar við skipuleggjum eigin akkeri, skilgreina þau okkur.

En hvað gerist þegar akkerin okkar breytast, jafnvel í einu vetfangi eins og þegar fólk greinist með krabbamein? Hvað gerist þegar akkerin okkar losna og tíminn er skilgreindur af öðrum? Þegar það sem deilir tímanum, dögunum og vikunum eru tímar sem eru pantaðir fyrir okkur, blóðprufa á miðvikudag, myndataka á mánudag, læknisheimsókn á fimmtudag, engin vekjaraklukka, engin vinna, ekkert skutl. Hvað verður um stefnuna okkar og sjálfsmynd þegar við ráðum ekki sjálf því sem við gerum á daginn?

Það sem við gerum á daginn hefur áhrif á það hvernig okkur líður, en hvað ef þú lætur alveg stjórnast af öðrum? Hvernig getur tími haft þýðingu fyrir okkur ef honum er stjórnað af öðrum? Getur einhver annar skipulagt daginn almennilega fyrir okkur þannig að við förum sátt að sofa? Kannski, í sumum tilfellum já örugglega, en ekki alltaf, ekki alla daga. Þess vegna verðum við að finna einhver akkeri sem við getum kallað okkar eigin og skilgreina daginn okkar. Akkeri sem eru óvéfengjanlega okkar eigin, sem skipta okkur máli og þau þurfa ekki að vera stór. Þau þurfa ekki að taka langan tíma, þau geta verið innan veggja heimilisins og geta verið einföld en þau þurfa að skipta okkur máli.

 

Skilgreindu þín akkeri

Það er hægt að setja niður akkeri með því að sækja alltaf Fréttablaðið og kíkja út fyrir, eða út um gluggann og horfa á skýin. Það getur verið að hlusta alltaf á morgunleikfimina á RÚV hvort sem þú tekur þátt eða ekki. Það getur verið að horfa á einn þátt af Love Island eftir að hafa labbað upp og niður tröppurnar. Það getur verið að skrifa í dagbók eða lita í litabók eða gefa deginum einkunn á skalanum 1-10, heildareinkunn eða mismunandi einkunnir fyrir ólíka þætti, orku, líðan, matarlyst, birtu- eða rakastig.

 

Hver eru þín akkeri?

Sama hvað gerist í lífinu er gott fyrir alla að velta sínum akkerum fyrir sér.

Hvað er það í lífinu sem heldur þér á sínum stað?
Eru þetta akkeri sem þú valdir eða voru þau valin fyrir þig?
Hvað eru þau stór og hverjum þeirra getur þú breytt?
Hvernig vilt þú skilgreina og afmarka þinn tíma?

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.