Baldvin Viggósson greindist fyrst með krabbamein árið 1996 og fór þá í stóra aðgerð. Nærri 15 árum síðar greindist hann með aðra tegund sarkmeins og lagðist aftur undir hnífinn en síðan bar ekki á neinu fyrr en undir haust 2017 við reglubunda eftirfylgni en þá komu í ljós meinvörp í lungum og hálsi. Á þeim punkti var andlega hliðin ekki upp á sitt besta og ákvað Baldvin þá að taka málin í sínar hendur og nýta sér þjónustu Ljóssins sem hann segir hafa hjálpað sér á margvíslegan hátt.
„Við síðustu greininguna fór ég heldur langt niður og var satt best að segja bara hundleiðinlegur yfir jólin og áramótin. Þegar lyfjameðferð hófst í byrjun nýs árs kom einn hjúkrunarfræðingurinn til mín og ýjaði að því að ég hefði nú kannski gott af því að sækja námskeið hjá honum Matta Ósvald sem heldur utan um fræðslufundi fyrir karlmenn í Ljósinu. Það var nú búið að benda mér á þetta áður en ég hafði ekki hlustað og ákveðið í hausnum á mér að þetta væri gott fyrir hina en svo kom bara í ljós að þetta var líka gott fyrir mig. Ég mætti á námskeið hjá Matta og fór síðan að mæta í líkamsræktina og fann fljótt hvað það er góður andi í Ljósinu og hversu mikilvægt það er að vera innan um fólk sem glímir við það sama og þú,“ segir Baldvin.
Baldvin hefur nú verið á lyfjum í að verða ár sem hafa gefið góða raun og haldið krabbameininu niðri. Hann segist hafa rokið upp í þreki en hann mætir eins oft og hann getur í karlatíma Ljóssins og eins í gönguhópana tvisvar í viku þar sem fólk fær sér hressandi göngutúr og spjallar. Hann er nú aftur farinn að sinna fullu starfi sem lögreglumaður en segir það enn hafa mikla þýðingu fyrir andlega heilsu sína að mæta í Ljósið.
„Ég var komin í þrot áður en ég kom hérna inn. Ég reyni að hvetja karlmenn sem ég þekki og greinst hafa með krabbamein til að nýta sér þjónustuna og er ekkert feiminn við að deila minni reynslu. Það er mín upplifun að þeir karlmenn sem nýta sér þjónustuna í Ljósinu séu ótrúlega jákvæðnir og opnir en það þyrfti mögulega helst að ná til þeirra sem ekki koma. Ég mæli eindregið með að gefa sér tíma til að koma og prófa þjónustuna. Mér finnst viðhorfið í samfélaginu líka hafa breyst mikið síðan ég greindist fyrst árið 1996. Þá var t.a.m. þrýst miklu meira á mann að mæta sem allra fyrst til vinnu aftur en mér finnst samfélagið allt mun hliðhollara í dag. Eins hefur orðið mikil framför í lyfjum t.d. líftæknilyfjum sem voru ekki þekkt fyrir 10 árum síðan. Margt hefur því sem betur fer breyst til batnaðar,“ segir Baldvin.
Baldvin stefnir ótrauður á Ljósafossgönguna upp Esjuna næsta vetur og ætlar að klífa Helgafellið og Úlfarsfellið með vorinu til að byggja upp þol. Hann var mikið í fjallgöngum áður en hann greindist og náði á topp Esjunnar þrátt fyrir að vera þá í þungri lyfjameðferð. „Ég tók nú kuningja minn með mér sem var í verra formi en ég svo ég kæmi ekki alveg jafn illa út og við töltum þarna saman upp, segir Baldvin og hlær. Að upplagi er hann í góðu formi sem lögreglumaður en segist hafa verið í einu besta formi lífs síns í kringum 2017 þegar hann greindist síðast og var þá hlaupandi upp á fjöll og hjólaði í vinnuna. Hann segir þann grunn hafa hjálpað sér mikið í veikindunum auk þess sem það hafi gefist vel í hans tilfelli að fara út að labba eða hjóla til að vinna á ógleði og öðrum aukaverkunum lyfjameðferða.
„Það er líka ákveðin núvitund í því að labba eða hjóla og gott að taka þá til í hausnum á sér. Ég hef komist að því að þú vaknar á morgnana og getur dálítið ákveðið daginn þinn ætlar þú að vera í eymd eða taka brosandi á móti honum. Ég tengdi sterkt við góða setningu sem kom fram hjá Matta og svona; Einn dag munum við öll deyja en alla hina dagana erum við á lífi hvað ætlum við að gera við þá daga, njóta þeirra eða hafa áhyggjur af þessum eina degi? Það hefur margt gerst hjá mér en þegar uppi er staðið þá hefur maður alltaf val um að stjórna hausnum, lífið er ferðalag og ég ætla að njóta þess,“ segir Baldvin að lokum.
Þessi grein birtist í árlegu tímariti Ljóssins 2019 – Höfundur greinarinnar er María Ólafsdóttir.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.