Allt um Ljósið og Reykjavíkurmaraþon 2019

Það hefur sennilega ekki farið fram hjá neinum að Reykjavíkurmaraþon fer fram laugardaginn  24. ágúst.

Rétt tæplega 300 manns eru nú skráðir til leiks í nafni Ljóssins og með hverri mínútunni bætast við krónur í söfnunina. Við erum innilega þakklát öllum þeim sem hlaupa, styrkja með áheitum, verða í klappliðinu eða styðja við fólkið okkar með öðrum hætti.

Vikan framundan verður eins og alltaf full af spennandi viðburðum en hér fyrir neðan erum við búin að draga saman næstu daga:

Pastaveisla og merktur Ljósabolur
Líkt og undanfarin ár bjóðum við hlaupurum okkar að koma til okkar í pastaveislu og fróðlegan fyrirlestur frá reyndum hlaupara og fá um leið afhentan bol merktan Ljósinu til að hlaupa í. Þessi veisla fer nú fram mánudaginn 19. ágúst kl. 17 í Ljósinu við Langholtsveg 43. Í ár mun Gunnar Ármannsson, hlaupagarpur, fjalla um hlaup og krabbamein en sjálfur greindist hann með ólæknandi blóðkrabbamein 38 ára gamall.

Skráningarhátíð Reykjavíkurmaraþons – Fit & Run

Þeir sem komast ekki til okkar á fimmtudaginn til að sækja sér bol þurfa samt ekki að örvænta því Ljósið verður á Fit and Run, skráningarhátíð Reykjavíkurmaraþons, sem fer fram í Laugardalshöll í vikunni fyrir Reykjavíkurmaraþon. Þar munum við klára að afhenda þeim sem hlaupa fyrir Ljósið boli og kynna starfssemina fyrir gestum og gangandi.

Skráningarhátíðin er opin:
Fimmtudaginn 22. ágúst kl. 15-20
Föstudaginn 23. ágúst kl. 14-19

Aðgangur er ókeypis.

Hvatningastöð Ljóssins við JL húsið
Eins og sl. 13 ár verður Ljósið með hvatningarstöð fyrir neðan JL húsið við enda Hringbrautar. Þangað mætum við eldsnemma með blöðrur, gleði, hamingju og bros og hlökkum svo sannarlega til að sjá sem flesta stuðningsaðila koma og hvetja hlauparana okkar áfram. Við veðum mætt snemma. Ræst verður í hálfmaraþon kl. 8:30 og til að ná að hvetja sem flesta hlaupara gæti verið gott að mæta um kl. 9:30 en athugið að víða verða götur lokaðar á milli kl. 7-13, eins og sjá má á hér.

Nýtt – Hvatningastöð Ljóssins við Naustabryggju
Í ár bjóðum við ykkur að hvetja með okkur á tveimur stöðum í Reykjavíkurmaraþoninu. Auk okkar föstu viðveru við JL húsið munum við blása til veislu við Naustabryggju sem er ný hlaupaleið í Reykjavíkurmaraþoni.

Þar ætlum við að hækka í græjunum, mæta með hrossabrestina, pottana og pönnurnar, og tryggja það að allir þeir sem fara í heilmaraþon fái fullt af jákvæðri orku áður en þeir halda aftur í vestur í átt að marklínunni.

Þessi stöð er kjörin fyrir þau ykkar sem viljið hvetja með okkur og eruð í hverfum eða bæjarfélögum fyrir austan Ártúnsholt þar sem þið sleppið við lokanir sem og getið sofið örlítið lengur en við byrjum að hvetja upp úr 10:00 í Naustabryggjunni.

Í lok hlaupsins – endastöð
Við í Ljósinu verðum líka með endastöð eins og síðustu ár og það væri einstaklega gaman ef þið gæfuð ykkur örfáar mínútur til að kíkja þangað til okkar þegar þið verðið búin að hlaupa. Þar verðum við með smá orkubita, bros og myndavél og langar að fá að fagna með ykkur. Endastöðin verður til vinstri skömmu eftir að komið er í gegnum endahliðið – Þið þekkið okkur á fánanum.

Í hvað fer það sem safnast?
Í fyrra söfnuðust rúmlega 10 miljónir sem runnu óskiptar í starfsemina okkar. Í gengum árin hefur upphæðin sem safnast hefur í maraþoninu verið notuð í margvísleg verkefni. Sem dæmi þá var strax felld niður gjaldtaka á hreyfingu í húsnæði Ljóssins og námskeiðsgjald í handverki. Í ár mun upphæðin að stórum hluta renna í að bæta húsakosti Ljóssins. Við höfum undanfarin misseri verið að undirbúa viðbót húsnæði Ljóssins og hefur nú verið fjárfest í húsi sem verður flutt á næstu lóð með haustinu.
Við þökkum ykkur öllum innilega fyrir stuðninginn!

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.