Gríptu daginn

Þeir eru ófáir sem hugsa til Ljóssins og vilja styrkja það með einum eða öðrum hætti og nú nýverið barst Ljósinu slíkur styrkur.  Styrkurinn er í formi geisladisks sem ber það hvetjandi heiti ,,Gríptu daginn“.  Á diskinum eru níu frumsamin lög eftir Hróbjart Jónatansson, hæstaréttarlögmann. Geisladiskurinn er fáanlegur í Ljósinu og kostar 2500 kr. og rennur allur ágóði í starfsemi Ljóssins.

Hróbjartur Jónatansson, texta og lagasmiður, er alinn upp í smáíbúðahverfinu í Reykjavík þar sem hann á æskuárum undi sér einkum við fótboltaspark, lestur hasarbóka og tónlistariðkun en fremur þó tónlistarhlustun. Hann hóf ungur að læra á píanó en þraut örendið eftir nokkurra ára nám þegar ,,Pétur og Úlfurinn“ varð að þoka fyrir Black Sabbath og Led Zeppelin. Á unglingsárum þefaði hann af ýmsum hljóðfærum, lærði stuttlega á klarinett og saxófón en skipti svo yfir á bassa sem hann þó staldraði ekki lengi við. Ómarkvisst gítarglamur tók þá við og var stundað með löngum hléum. Læknisfræðileg greining á þessu staðfestuleysi Hróbjarts er eflaust til en er honum þó óþekkt. Hróbjartur lagði síðar fyrir sig lög þó tónlist kæmi ekki þar við sögu. Hann stundaði laganám hér heima og erlendis og hefur starfað sem hæstaréttarlögmaður um árabil. Fyrir ekki löngu síðan endurnýjaði Hróbjartur samband sitt við píanóið og með það og gítar að vopni réðst  hann í að semja lög og texta sem hann einsetti sér að gefa út á sextugasta aldursárinu.

Um leið og við þökkum Hróbjarti innilega fyrir  stuðninginn hvetjum við áhugasama til að renna við hjá okkur á Langholtsveginum og grípa með sér eintak.

 

 

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.