Starfsfólk Ljóssins og þeir sem þangað sækja láta nú ekki 13 metra á sekúndu, rigningu og svignandi tré aftra sér frá því að halda vorhátíð. Því var fyrirhuguð hátíð bara flutt inn, pylsugrillarinn stóð reyndar úti með húfu og vettlinga og grillaði gómsætar eðal SS pylsur sem voru á boðstólnum ásamt girnilegri súkkulaði köku og góðgæti úr skrínum kokksins. Fjölmennt var í húsinu og gleðin við völd, eins og reyndar yfirleitt í Ljósinu.
Þeir sem lagt hafa Ljósinu hjálparhönd sem sjálfboðaliðar undanfarinn vetur voru kallaðir til og þakkað fyrir ómetanleg störf í þágu Ljóssins.
Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar tvíeykið Sverri Bergmann og Halldór Gunnarsson yfir-Fjallabróðir tróðu upp með nokkrum vel völdum slögurum. Þeim tókst að skapa þvílíka brekkustemmingu, kl. 14 eftir hádegi á þriðjudegi að væntanlega verður erfitt að toppa það. Hér má sjá smá brot …
Við þökkum innilega öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við að skapa góða og skemmtilega vorstemmingu á þessum annars vindasama þriðjudegi því allir mættu með sól í sinni.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.