Fræðslunámskeið fyrir fólk með langvinnt krabbamein

Hópmeðferðarnámskeið fyrir fólk sem er með langvinnt krabbamein.

Umsjón: Anna Sigríður Jónsdóttir BSc iðjuþjálfi og Hrefna Húgósdóttir hjúkrunarfræðingur. Rannveig Björnsdóttir næringarfræðingur, MSc verður með fræðslu um næringu í einum tímanum.

Aðalmarkmiðin með námskeiðinu eru að þátttakendur auki, jafnvægi sitt í daglegu lífi, starfsfærni, vellíðan og von. Á námskeiðinu gefst tækifæri til þess að hitta aðra í sömu sporum, fá fræðslu og stuðning við að þekkja eigin tilfinningar, hugsanir, efla sjálfsmyndina, draga úr þreytu, auka jafnvægi í daglegri iðju, styrkja tilgang og von, huga að næringu og kynnast slökun og árvekni.

Námskeiðið byggir meðal annars á hugrænni atferlismeðferð (HAM). HAM-meðferð hefur verið notuð við margskonar andlegri vanlíðan; þunglyndi, kvíða, reiði, slöku sjálfstrausti, veikindum, ástvinamissi og fleiru. HAM felst í margskonar hugrænni og atferlislegri tækni sem hjálpar fólki meðal annars að breyta neikvæðum óhjálplegum hugsunum.

Námskeiðið er á mánudögum í 8 skipti í 2 tíma í senn, kl. 13.50-15.50.  Námskeiðið byggir á fræðslu, stuttum verkefnum, umræðum og slökunar/núvitundar æfingum.

Tímum námskeiðsins er skipt niður í eftirfarandi efnisþætti:

  • Kynning. Viðbrögð og aðlögun vegna veikinda.
  • Þreyta og jafnvægi í daglegri iðju
  • Að þekkja eigin tilfinningar og hugsanir
  • Holl næring og næringarvenjur
  • Sjálfmynd og sjálfstyrkur
  • Samskipti og félagslegur stuðningur
  • Tilgangur, markmið og von
  • Upprifjun og úrvinnsla

Næsta námskeið

Nýtt námskeið hefst 21. febrúar 2018

Miðvikudagar kl. 14 – 16
8 vikur – sjá efnistök hér til hliðar

Umsjón: Anna Sigríður Jónsdóttir, BSc iðjuþjálfi
og Hrefna Húgósdóttir, hjúkrunarfræðingur

Námskeiðið kostar kr. 3.000

Skráning og upplýsingar í síma 561-3770