Meðferð við sogæðabjúg

sjkrajlfun.jpg Sogæðabjúgur getur meðal annars myndast í kjölfar skurðaðgerðar vegna krabbameins sérstaklega þegar margir eitlar eru fjarlægðir og eftir geislameðferð.  Ekki er hægt að segja til um hverjir fá sogæðabjúg eða hversu mikill hann verður. Sogæðabjúgur getur jafnvel komið fram mörgum árum eftir meðferð.

Sogæðabjúgur er vökvasöfnun sem verður vegna skertrar starfsgetu sogæðakerfisins í ákveðnum líkamshlutum. Eitlar og sogæðar mynda sogæðakerfið. Það liggur um allan líkamann og hlutverk þess er að fjarlægja umframvökva, eggjahvítuefni og bakteríur sem blóðrásin ræður ekki við. Sogæðakerfið er hluti af ónæmiskerfi líkamans. Venjulega er vökva skilað til baka í blóðrásina án þess að fólk verði þess vart. Þegar til dæmis eitlar eru fjarlægðir getur skapast ástand þar sem líkaminn ræður ekki við að flytja aukinn vökva sem myndast, t.d. þegar sýking kemur í sár,  við mikla áreynslu eða þar sem heitt er. Vökvinn safnast fyrir og bjúgur myndast.

Sjúkraþjálfarar með sérþekkingu í meðferð við sogæðabjúg geta bent á  leiðir til að draga úr líkum að sogæðabjúgur myndist og gefið viðeigandi meðferð þegar bjúgur er til staðar.

Meðferð við sogæðabjúg er margþætt og samanstendur af fræðslu, æfingum, sogæðanuddi og þrýstingsmeðferð.

 

Kolbrún Lís sjúkraþjálfari í Ljósinu sérhæfir sig í meðhöndlun á sogæðabjúg.