Við bjóðum þjónustuþega Ljóssins og aðstandendum þeirra hjartanlega velkomna á fyrirlestraröðina Samtalið heim.
Á námskeiðum í Ljósinu hefur oft verið rætt hversu þarft og gott það væri fyrir þjónustuþega og aðstandendur að vera saman á fræðslu. Sérstaklega þar sem oft er erfitt að yfirfæra upplýsingar og upplifanir heim. Þegar tveir hlusta saman er einnig hægt að ræða fyrirlesturinn þegar heim er komið án þess að þurfa að endursegja hann.
Fyrirlestraröð fyrir ljósbera og aðstandendur þeirra. Fyrirlestrarnir eru síðasta mánudag hvers mánaðar.
Staðsetning er í húsnæði Ljóssins og verður fræðslunum einnig streymt í gegnum ZOOM.
Skráning fer fram rafrænt og í móttöku Ljóssins.
8. desember – Reynslusaga Ljósbera | Guðlaug Ragnarsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og umsjónaraðili aðstandendaKrafts
Þegar Guðlaug Ragnarsdóttir greindist með brjóstakrabbamein aðeins 43 ára gömul tók lífið skyndilega u-beygju, ekki bara fyrir hana heldur fyrir alla fjölskylduna. Eiginmaður hennar vann mikið til að halda sér uppteknum, yngri dóttir hennar spurði mikið og lá í mömmufangi, en sú eldri tók þetta á hnefanum og mætti með móður sinni í lyfjameðferðir.
Aðstandendur vilja styðja en finna sig oft í erfiðri stöðu, þeir vilja hlífa þeim sem er veikur og þora kannski ekki að ræða sín eigin vandamál af ótta við að bæta álagi ofan á það sem sá krabbameinsgreindi gengur í gegnum. En stundum er það einmitt samtalið sem veitir styrk.
Krabbameinsgreining og -meðferð hafa áhrif á alla þætti lífsins og með jólin á næsta leiti eru eflaust margir uggandi yfir hvernig hátíðarnar verða. Engar tvær fjölskyldur eru eins og þær takast allar á við atburði lífsins öll á sinn hátt. Guðlaug deilir sinni reynslu af því að greinast með krabbamein og ganga í gegnum endurhæfingarferlið. Hún segir frá upplifun sinni og áhrif á fjölskyldumeðlimi, bæði á meðan á endurhæfingunni stóð og að henni lokinni.
Næsti fyrirlestur
Hefst 8. desember
Mánudagur kl. 16:30-17:30
Staðsetning:
Fræðslan fer fram í húsnæði Ljóssins við Langholtsveg en einnig í streymi.

