Það er ekki möguleiki að hlífa börnum fyrir breytingum, missi, sársauka eða streitu.

Hver fjölskylda er einstök og engin ein leið er réttari en önnur í barnauppeldi. Það er engin fullkomin leið til. Lífið er líka sagan um mistök en það er hægt að lifa þau af og læra af þeim. Það er ekki möguleiki að hlífa börnum fyrir breytingum, missi, sársauka eða streitu en það er hægt að veita þeim öryggi og kenna þeim aðferðir til að takast á við og vaxa við öll þau skilyrði sem lífið færir.
Foreldrar sem búa við líkamlegar skerðingar vegna sjúkdóms eiga oft í miklum erfiðleikum með að sína barni sínu aga og setja því kröfur. Það getur verið erfitt að aga börn þegar foreldri er háð barni um persónulega umönnum.

Foreldrar eru stundum ekki á sama máli hvernig á að ala upp börnin og þegar annað þeirra verður minna virkt sem foreldri vegna veikinda getur komið til árekstra milli hjóna sem enn frekar eykur álagið sem fyrir er.

Barn þarf að finna að þrátt fyrir veikindin er foreldrið við stjórn. Aginn þarf að vera sambærilegur og fyrir veikindin.

Ábyrgð
Foreldrar þurfa að átta sig á hvað sé eðlilegt að börnin taki að sér í sambandi við umönnun þeirra og þátttöku í hlutverkum sem sjúklingurinn gegndi áður.

Börn geta þroskast við að taka ábyrgð sem hæfir aldri þeirra og það getur hjálpað þeim við aðlögun þeirra að vera þátttakendur og læra sveigjanleika í hlutverkum. En ábyrgðin þarf að vera réttlætanleg. Það er ekki rétt að barn þurfi að taka þarfir foreldra sinna fram fyrir sínar þarfir og það jafnvel í einhver ár.

Ef börn þurfa að taka aukna ábyrgð, eins og á yngri systkinum og heimilishaldi, er mikilvægt að fjölskyldan ræði þær breytingar saman og eigi viðræður um jafnvægi, sveigjanleika og sameiginlega ábyrgð. Börn og unglingar þurfa að geta tjáð sig um þessar breytingar og það er mikilvægt að þau séu ekki föst í umönnunarhlutverki. Hjá einstæðum foreldrum er aukin hætta á að börn fari í umönnunarhlutverk.

Hvernig foreldrar höndla breyttar aðstæður er fyrirmynd barnanna hvernig hægt er að aðlagast erfiðum aðstæðum.