Samstarfsverkefni Nettó og Ljóssins hefur skilað fimm og hálfri milljón króna, sem renna nú óskipt til endurhæfingar fólks með krabbamein. Þetta er þriðja árið í röð sem Nettó og Ljósið efna til samstarfs í júlímánuði og í ár var það myndlistarmaðurinn Steingrímur Gauti sem hannaði listaverkið sem prýðir sérhannaða, fallega slæðu og veglegan taupoka. Vörurnar voru seldar í verslunum Nettó um allt land.
Átakið gekk sem fyrr vonum framar og söfnuðust fimm og hálf milljón króna. Þá mun sá varningur sem enn er óseldur vera til sölu hjá Ljósinu í vetur og allur ágóði áfram renna til stuðnings við Ljósið.
Sönn ánægja að leggja okkar af mörkum
„Það er okkur sönn ánægja að leggja okkar af mörkum til Ljóssins. Starfið sem þar fer fram snertir samfélagið allt og við erum afar þakklát fyrir frábæra þátttöku viðskiptavina Nettó um land allt sem sýndu stuðning sinn í verki með því að kaupa fallegu vörurnar með verki Steingríms Gauta í Nettó“ sagði Katrín Aagestad Gunnarsdóttir, markaðsstjóri Nettó. Varningurinn verður til sölu áfram á meðan birgðir endast í Ljósinu og ég hvet fólk til að næla sér í spil eða poka þar“.

Eva Guðrún Kristjánsdóttir, verkefnastjóri markaðsmála hjá Ljósinu, Steingrímur Gauti, listamaður og Katrín Aagestad Gunnarsdóttir, markaðsstjóri Nettó.
„Stoltur að fá að leggja verkefninu lið“
„Afi minn fór í endurhæfingu hjá Ljósinu og leið þar virkilega vel, Ljósið er því alveg sérstakur staður fyrir mér og því finnst mér sjálfsagt að taka þátt í þessu styrktarverkefni. Orkan í húsinu hefur alltaf verið jákvæð og falleg – næstum því áþreifanleg, og ég er því stoltur að fá að leggja verkefninu lið og óska öllum sem tengjast Ljósinu alls hins besta,“ sagði Steingrímur Gauti Ingólfsson, myndlistarmaður.
„Fyrir miðstöð eins og Ljósið sem reiðir sig að stórum hluta á stuðning þjóðarinnar er verkefni eins og þetta ómetanlegt. Við erum virkilega þakklát öllu okkar góða fólki hjá Nettó, listamanninum Steingrím Gauta sem og öllum þeim sem lögðu verkefninu lið með kaupum á vörum. Þessir fjármunir gera okkur kleift að halda áfram að veita þeim sem greinast mikilvæga endurhæfingu,“ segir Eva Guðrún Kristjánsdóttir, verkefnastjóri markaðsmála hjá Ljósinu.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.






