Nemendur söfnuðu 2,2 milljónum fyrir Ljósið

Nemendur Hagaskóla taka árlega þátt í góðgerðardeginum Gott mál, þar sem þeir velja eitt innlent og eitt erlent málefni til að styrkja. Í ár var góðgerðardagurinn haldinn í fjórtánda sinn og völdu nemendur að styrkja barna- og ungmennastarf Ljóssins og börnin á Gasa.

Nemendurnir söfnuðu fyrir málefnunum með sölu á mat, bakstri og varningi, auk skemmtilegum leikjum, uppákomum og þrautum. Þeir lögðu mikla vinnu í að skipuleggja daginn og fræðast um mikilvægi þess að láta gott af sér leiða og vera ábyrgir samfélagsþegnar.

Fimmtudaginn 13. nóvember var dagurinn haldinn. Valgý Arna Eiríksdóttir mætti fyrir hönd Ljóssins og Hjálmtýr Heiðdal fyrir hönd Íslands-Palensínu. Nemendur afhentu þeim styrkinn og í heildina söfnuðust 4,4 milljónir, sem skiptast jafnt á milli samtakanna.

Ómar Örn Magnússon, skólastjóri Hagaskóla, segir tilgang verkefnisins vera að nemendur upplifi mikilvægi þess að láta gott af sér leiða og skilji að góðverk geti haft raunveruleg áhrif á líf annarra.

Við í Ljósinu erum innilega þakklát fyrir nemendur Hagaskóla, fyrir fallega hugsun og fyrir að vilja styrkja Ljósið. Einnig viljum við þakka Hagaskóla fyrir að standa fyrir þessu frábæra verkefni sem hvetur ungt fólk til að gera góðverk. Vel gert, algjörlega til fyrirmyndar!

     

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.