Um daginn fengum við yndislega heimsókn í Ljósið frá þeim Petru Lind Einarsdóttur og Lilju Magnúsdóttur frá HS Orku, sem komu færandi hendi og afhentu styrk til starfsins í Ljósinu.
Lilja greindist með brjóstakrabbamein í vor og hefur síðan sótt þjónustu hér í Ljósinu. Hún segir að Ljósið hafi gert mikið fyrir sig frá því að hún greindist og að henni hafi verið bent á að leita hingað frá Landspítalanum. Lilja vill hvetja alla til að fara reglulega í skimum þar sem greiningin hennar kom algjörlega á óvart. Hún fann fyrir engum einkennum, hafði enga erfðafræðilega áhættuþætti og lifði heilbrigðu lífi. Saga Lilju er einnig sérstök að því leyti að hún ákvað samhliða lyfjagjöfinni að nýta nýja tækni til að draga úr hárlosi. Hún notaði -32°C kælihettu til að verja hársekkina og er talið að hún sé ein af fyrstu Íslendingunum til að prófa þessa aðferð.
Í tilefni Bleiks október ákváðu samstarfsfélagar hennar hjá HS Orku að gera mánuðinn sérstaklega merkilegan, með því að sýna samstöðu og standa við bakið á henni og öðrum sem hafa greinst með krabbamein. Starfsfólk HS Orku safnaði saman fjárframlagi með „Happy Hour“ viðburði innan fyrirtækisins, sem HS Orka studdi með fimmföldu mótframlagi. Saman söfnuðu þau 420.000 krónum, sem rennur beint til starfsins í Ljósinu.
Við í Ljósinu erum afar þakklát fyrir stuðninginn og hlýjuna og við sendum Lilju, okkar bestu óskir um áframhaldandi styrk og bata❤️

Mynd frá vinstri: Petra Lind Einarsdóttir, mannauðsstjóri HS Orku, og Lilja Magnúsdóttir, deildastjóri auðlindastýringar HS Orku.
Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.






