Nú er hægt að kaupa Vitundarbangsa í Litlu Ljósabúðinni og allur ágóði rennur beint til Ljóssins.
Bangsarnir eru hannaðir af ungri konu sem nýlega útskrifaðist úr Ljósinu. Hana langaði til að gefa eitthvað til baka til Ljóssins, sem hafði verið stór hluti af hennar endurhæfingu. Hún segir að stuðningur annarra hafi skipt sköpum á hennar vegferð og að það hafi munað öllu að finna að hún væri ekki ein. Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að gefast aldrei upp og að styðja við bakið á fólkinu í kringum okkur.
Bangsarnir eru fáanlegir í nokkrum litum og í tveimur stærðum. Litirnir eru til vitundarvakningar um mismunandi tegundir krabbameina. Bangsarnir standa styrkum fótum og gefa krabbameini fingurinn. Þeir eru tákn vonar, styrks og samstöðu. Áminning um það að enginn þarf að fara í gegnum þessa vegferð einn.
Endurhæfing samhliða meðferðum er oft besta leiðin til þess að takast á við hinar ýmsu aukaverkanir og í Ljósinu er lögð sérstök áhersla á stuðning annarra í sömu vegferð. Þessi félagsskapur er ómetanlegur og það sem flestir taka með sér úr Ljósinu.
Allur ágóði rennur beint til Ljóssins og styður áframhaldandi starf okkar. Við þökkum kærlega fyrir stuðninginn í þessu fallega verkefni!

Ekki er hægt að skilja eftir athugasemdir.






